Norskir útgerðarmenn vilja að brugðist verði við kvótaniðurskurði í Barentshafi m.a. með því að fella niður kvóta Íslendinga í Barentshafi. Norskir útgerðarmenn hafa áður sett fram þessa kröfu. Í bókunum við Smugusamninginn kemur skýrt fram að fari leyfilegur heildarafli þorsks í Barentshafi niður fyrir 350.000 tonn falli kvóti Íslendinga niður. Í því tilviki falla veiðiheimildir Norðmanna í íslenskri lögsögu einnig niður. Ljóst er nú að heildarkvóti í þorski í Barentshafinu verður á næsta ári 340.000 tonn.
1,86%
Smugusamninginn má rekja til veiða íslenskra fiskiskipa á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi á árinu 1993. Einnig veiddu íslensk skip við Svalbarða á hafsvæði sem Norðmenn gera tilkall til. Þar stöðvuðu Norðmenn veiðarnar en þeir gripu ekki til aðgerða á alþjóðlega hafsvæðinu sem kallað var Smugan. Árið 1999 var gerður þríhliða samningur milli Íslendinga, Norðmanna og Rússa sem fól í sér að veiðum var hætt í Smugunni gegn kvóta í Barentshafi og endurgjaldið var jafnframt veiðiheimildir til handa Norðmönnum í íslenskri lögsögu.
Audunn Maråk, formaður Fiskebåt, hagsmunasamtaka útgerðarmanna í Noregi, sagði í Fiskeribladet nýlega að hann teldi að nú væri komin upp sú staða að heimilt sé að segja upp Smugusamningnum við Ísland. Þetta hefur hann ítrekað lagt til en norsk stjórnvöld hafa fram til þessa staðið við samninginn. Kvóti Íslendinga í Barentshafi hefur samsvarað 1,86% af leyfilegum heildarafla þorsks í Barentshafi. Í samningnum segir: „Fari leyfilegur heildarafli niður fyrir 350.000 lestir fellur kvóti Íslendinga niður. Í því tilviki falla kvótar og veiðiheimildir Norðmanna sem um getur í 3. gr. einnig niður.“ Í svörum sem hafa borist frá Matvælaráðuneytinu kemur fram að það sé því ekki ákvörðun norskra (eða rússneskra) stjórnvalda að úthluta aflaheimildum eða ekki, heldur eru þetta einfaldlega mörkin sem sett eru í samninginn.
Samningurinn í gildi a.m.k. til 2027
Smugusamningurinn gildir til fjögurra ára í senn og endurnýjast 1. janúar á fjögurra ára fresti. Núverandi samningstímabil hófst 1. janúar 2023. Aðilum er heimilt að fara fram á endurskoðun samnings eða bókunar með formlegri tilkynningu eigi síðar en 6 mánuðum fyrir lok samningstímabils. Það er því í síðasta lagi 30. júní 2026. Ef ekki hefur samist um endurskoðun má segja upp eigi síðar en 30. september 2026. Aðilar samningsins geta komið sér saman um að uppsögn taki gildi annan dag, en slíkt hefur ekki borist í tal á milli ríkjanna þriggja. Norskir útgerðarmenn hafa nánast frá upphafi haft horn í síðu Smugusamningsins og ítrekað farið fram á endurskoðun hans þar sem þeir telja að gagnkvæmar veiðar í lögsögu landanna séu klárlega Íslendingum í hag. Jafnframt beiti Íslendingar Norðmenn tæknilegum hindrunum við veiðar í íslenskri lögsögu. Í bókun Íslands og Noregs við upphaflega samninginn frá 1999 var gert ráð fyrir að íslensk skip veiddu 4.450 lestir af þorski á árinu 1999 í norskri lögsögu norðan 62°N. Norsk skip fengu á sama ári að veiða 500 lestir af löngu, keilu og blálöngu á línu í íslenskri lögsögu utan 12 sjómílna frá grunnlínum og sunnan 64°N og 17 þúsund lestir af loðnu í íslenskri lögsögu norðan 64°30‘N á tímabilinu frá 20. júní til 15. febrúar.
„Kvótinn í löngu, keilu og blálöngu helst óbreyttur út samningstímann en loðnukvótann ber að laga hlutfallslega að árlegum þorskkvóta Íslendinga. Fari viðkomandi stofn hins vegar niður fyrir líffræðileg hættumörk fellur kvóti Norðmanna úr þeim stofni niður og skulu aðilar þá taka upp viðræður um annað endurgjald,“ segir í bókuninni.