Boðaður kvótaniðurskurður á næsta fiskveiðiári ofan í niðurskurð á yfirstandandi fiskveiðiári hefur skapað talsverðar áskoranir fyrir fiskvinnsluna í landinu. Þannig þurfti í fyrsta sinn í sögu fiskvinnslu- og útgerðarfélagsins Kambs að stöðva starfsemina alfarið í fjórar vikur síðastliðið sumar. Hólmar Hinriksson, rekstrar- og framleiðslustjóri, segir útlitið enn verra nú og það stefni í  allt að sex vikna stöðvun næsta sumar.

Heildarúthlutun aflamarks fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var 322 þúsund þorskígildistonn sem var lækkun um 37 þúsund þorskígildstonn frá fiskveiðiárinu 2020/2021. Úthlutun í þorski yfirstandandi fiskveiðiári er 222 þúsund tonn en lækkar í tæp 209 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári en úthlutun á ýsu fer á móti úr 41 þúsund tonni í 62 þúsund tonn. Hólmar segir minni þorskkvóta talsverða áskorun í rekstri Kambs. Fyrirtækið gerir út krókabátinn Kristján HF og er auk þess í föstum viðskiptum við Indriða Kristins BA og Særif SH. Óverulegt magn er keypt á fiskmarkaði. Auk þess fær Kambur eitthvað af ýsu frá togurum Brims hf. Miðað við kvótastöðuna verður hægt að gera bátana út í tíu mánuði á fiskveiðiárinu og loka þarf vinnslunni í að minnsta kosti sex vikur.

60% til Bandaríkjanna

„Þetta er eitthvað sem okkar kúnnar eiga ekki að venjast. Þetta er líka ný staða fyrir okkur þótt við hefðum þurft að loka í fjórar vikur núna í sumar í fyrsta sinn. Við finnum óánægju frá okkar viðskiptavinum,“ segir Hólmar. Langstærsti kaupandinn er Costco í Boston. Hann segir að sú hætta sé fyrir hendi þegar afhendingaröryggið riðlist að kaupendur leiti annað og það geti haft áhrif á viðskiptasambandið.

Faðir Hólmars, Hinrik Kristjánsson og systkini hans, stofnuðu Kamb á Flateyri 1987. Fjölskylda Hinriks flutti suður árið 2007 og opnaði þá fiskvinnslu og útgerð með sama nafni og á sömu kennitölu í Hafnarfirði tveimur árum síðar. Stóra breytingin var sú að fara út í ferskfiskvinnslu í stað saltfiskvinnslu sem hafði verið kjarninn í starfseminni fyrir vestan. Árið 2018 keypti Kambur fiskvinnsluhús á Óseyrarbraut þar sem Eskja hafði áður verið með bolfiskvinnslu. Það er helmingi stærra en fyrra húsnæði. Nú eru tvær flæðilínur í stað einnar og slæging og vinnsla undir sama þaki. Vinnslan er hátæknivædd. Þar er vatnskurðarvél frá Völku og flökunarvél frá Curio svo fátt eitt sé nefnt. Fyrirtækið hefur því stækkað og eflst á síðustu árum. Nú starfa þar 40 manns, þar af margir sem áður störfuðu hjá Kambi þegar fyrirtækið var á Flateyri. Í október 2019 komst Kambur í eigu Brims hf. sem á sama tíma eignaðist einnig útgerðarfélagið Grábrók. Núna er 90% framleiðslu Kambs ferskur fiskur og 80% afurðanna fer flugleiðina á erlenda markaði. Þar er Bandaríkjamarkaður fyrirferðamestur með um 60% hlutdeild. 25-30% fer síðan inn á Bretland.

Hólmar Hinriksson, rekstrar- og framleiðslustjóri Kambs.
Hólmar Hinriksson, rekstrar- og framleiðslustjóri Kambs.
© Guðjón Guðmundsson (.)

Skoða aukna ufsavinnslu

Í fyrra voru unnin um 6.000 tonn hjá Kambi, mest af þorski og ýsu en þó einnig ufsi en í minna magni. Þar af komu um 2.000 tonn frá Kristjáni HF og lítið eitt minna frá Indriða Kristins og Særifi.  Hólmar segir að heldur minna verði unnið á þessu ári út af kvótaleysi. Aflinn er að mestu unninn í flök að stærstum hluta inn á Bandaríkjamarkað. Hólmar segir að huganlega verði brugðist við kvótaleysinu með aukinni vinnslu á ufsa.

Bandarísk stjórnvöld hafa lokað á innflutning rússneskra sjávarafurða inn til landsins en Hólmar kveðst ekki merkja áhrif þess á markaðinn. Afurðaverð hafi verið í hæstu hæðum og hafi haldist það lengi. Miklar afurðaverðshækkanir hafa líka verið í Bretlandi, hvort sem rekja megi þær til aukinnar eftirspurnar eftir að ofurtollur var lagður á allan rússneskan fisk eða einhvers annars. Hólmar bendir á að hráefnisverð hafi líka hækkað mikið en þrátt fyrir það hafi verið ágæt framlegð af rekstrinum undanfarið. Ekki séu plön uppi um annað en að halda starfseminni óbreyttri með um 40 starfsmönnum og vinna um 5-6.000 tonn á ári.

„Við erum að prófa okkur aðeins áfram í ufsa og viljum hvort við getum fylgt upp í hráefnisþörfina með ufsa. Við munum þurfa að spara við okkur þorskkvótann fram eftir vetri og leggjum þá meiri áherslu á að vinna ýsu og ufsa samhliða annarri vinnslu,“ segir Hólmar.

40 manns starfa hjá Kambi í Hafnarfirði.
40 manns starfa hjá Kambi í Hafnarfirði.
© Guðjón Guðmundsson (.)