Kvótablað Fiskifrétta kemur nú út í tuttugasta sinn. Í blaðinu er að finna upplýsingar um úthlutun aflaheimilda samkvæmt aflahlutdeild í upphafi fiskveiðiársins 2022/2023 og skiptingu þeirra.

Birtur er listi fyrir kvóta nær allra íslenskra skipa og báta, listi yfir 50 kvótahæstu útgerðir og kvóta eftir heimahöfnum.

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2022/2023. Úthlutunin fer fram með sama hætti og áður á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir.

Fimmtíu stærstu

Þetta árið fá fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin 90,9% af úthlutuðu aflamarki, en það hlutfall hefur hækkað nánast árlega allar götur frá því kvótakerfið var tekið upp. Fyrir fimm árum var það 86,1% og árið 2020 náði það fyrst 90%. Að sama skapi hefur hlutfall fimm stærstu útgerðanna hækkað úr 30,4% árið 2018 og stendur nú í 33%.

Mesta úthlutun fær Brim hf. til sinna skipa eða 10,26% af heildinni, næst kemur Samherji Ísland ehf. með 6,78%, þá FISK Seafood ehf. með 6,24% og Þorbjörn hf. með 5,32%. Þetta eru sömu fimm fyrirtækin og voru í efstu stætum í fyrra, og í sömu röð.

Reykjavík aftur á toppinn

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár en skip sem gerð eru þaðan út fá töluvert meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 11,8% en þau fengu 10,52% í fyrra. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum fá úthlutað 10,91% en Grindavík fær úthlutað 10,52%. Þar með er Reykjavík aftur komin með mestu úthlutunina, eftir nokkurra ára tímabil með Vestmannaeyjar á toppnum.

Kvótablað Fiskifrétta 2022
Kvótablað Fiskifrétta 2022

Heildarúthlutun ársins er 321 þúsund þorskígildistonn sem er lækkun um eitt þorskígildistonn frá síðasta ári, en árið þar á undan var 359 þúsund tonnum úthlutað.

Úthlutun í þorski er tæplega 164 þúsund þorskígildistonn en var rúmlega þorskígildistonn á síðasta fiskveiðiári. Úthlutun í ýsu er rúm 48 þúsund tonn og hækkar um 5 þúsund ÞÍG tonn milli ára.

Skipum fækkar

Alls er aflamarki er úthlutað þetta árið á 396 skip í eigu 307 aðila. Þetta er 28 skipum færra en í fyrra og útgerðaraðilum hefur fækkað um 1. Sólberg ÓF-1 í eigu Ramma fær mestu aflamarki úthlutað, eða 9.565 ÞÍG-tonnum. Guðmundur í Nesi ER-13 í eigu Brim hf. fær næstmest eða 7.645 ÞÍG-tonn.

Bátum í krókaflamarkskerfinu fækkar um 25 og eru nú 217. Bátum í aflamarkskerfinu fækkar um tvo á milli ára og eru nú 179. Bátar undir 15 metrum og 30 brúttótonnum fá úthlutað rúmlega 45 þúsund ÞÍG-tonnum, en bátar yfir 15 metrum og 30 brúttótonnum fá úthlutað 369 þúsund ÞÍG-tonnum.