Fimm íslensk uppsjávarskip voru við kolmunnaveiðar í Rósagarðinum í byrjun vikunnar og orðaði Páll Rúnarsson, stýrimaður á Aðalsteini Jónssyni, það svo að oft hefði verið meiri kraftur í veiðunum. Kaldi var á miðunum en veðrið hamlaði þó ekki veiðum. Páll sagði gott að geta gripið í kolmunnann sérstaklega þar sem lítið útlit væri fyrir loðnuveiðar á þessu ári.
„Við höfum verið á Þórsbankanum og núna í Rósagarðinum að berjast við það að veiða kolmunna. Það er frekar rólegt yfir þessu. Skipin eru að fá tólf til fimmtán tonn á tímann. Það eru einhver lóð sem gefa annað slagið og við þurfum að draga alveg niður við botn. Þetta nurlast saman en það hefur klárlega oft verið betra. Skipin voru að fá þetta 250-270 tonn eftir sólarhring. Það var betri veiði hérna fyrst þegar skipin komu hingað út en svo hefur dregið úr þessu. Venjan hefur verið sú að klára kolmunnavertíðina í færeyskri lögsögu í desember,” segir Páll.
43.000 tonn standa eftir
Aflamark á almanaksárinu er tæp rúm 309.000 tonn og þegar þetta er skrifað höfðu veiðst 266.000 tonn. Eftir standa því rúm 43.000 tonn. Kolmunninn sem veiðist er vænn. Aflinn fer allur í bræðslu. Það er því talsverð verðmætasköpun í gangi í kringum þessar veiðar því verð á fiskmjöli og lýsi er hátt um þessar mundir.
Auk Aðalsteins Jónssonar SU voru fjögur önnur íslensk skip á miðunum, þ.e. Jón Kjartansson SU, Barði NK, Sigurður VE og Heimaey VE. Svipaður gangur var á veiðunum hjá þeim öllum. Páll átti von á því að haldið yrði á miðin á ný eftir næstu löndun. Fiskurinn hafi heilt yfir verið góður að gæðum. „Mér hefur skilist að það fáist gott verð bæði fyrir mjöl og lýsi. Með þessum veiðum erum við því að framleiða fóður fyrir betri matfisk og í raun er verið að breyta kolmunna í lax," segir Páll.
Fréttin hefur verið uppfærð.