Leiddar eru að því líkur að grjótkrabbi - norður-amerísk krabbategund – hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni flutningaskips um aldamótin 2000. Á þeim stutta tíma sem er liðinn síðan hefur grjótkrabbinn numið land á um 70% strandlengju Íslands.

Fyrsti fullorðni grjótkrabbinn fannst árið 2006 í Hvalfirði af áhugakafara, Pálma Dungal, sem með árvekni sinni áttaði sig á því að krabbinn sem hann hitti fyrir á botni fjarðarins var frábrugðinn þeim tegundum krabba sem hann hafði hitt fyrir áður. Vakti hann athygli sérfræðinga á fundi sínum, og síðan þá hafa staðið yfir umfangsmiklar rannsóknir og skráning á útbreiðslu tegundarinnar sem er undraverð, en á vissum svæðum þar sem grjótkrabbi finnur hagfelld skilyrði er hann fjölliðaðri en í upprunalegum heimkynnum sínum við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada. Grjótkrabbi hefur hvergi fundist utan náttúrulegra heimkynna sinna, nema hér við Ísland.

Landnám
Þeir Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, gerðu á dögunum landnám og uppgang grjótkrabbans að umtalsefni á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þeir hafa haft veg og vanda af rannsóknum á útbreiðslu og þéttleika grjótkrabbans - bæði á fullorðnum einstaklingum og lirfum. Rannsóknir hafa hins vegar ekki aðeins gagnast til að kortleggja uppgang grjótkrabbans heldur hafa samhliða fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland; bogkrabba og trjónukrabba.

16 framandi tegundir
Halldór sagði í erindi sínu að við Ísland sé í dag vitað um sextán framandi tegundir sjávarlífvera. Framandi tegundir eru þær sem lifa utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis síns og hafa verið fluttar af mannavöldum, og þá annað hvort viljandi eða óviljandi. Þessi þróun, landnám þessara tegunda, er óæskileg og í sumum tilfellum grafalvarleg. Því framandi tegund getur orðið ágeng – haft mikil og langvarandi áhrif á svæði sem þær nema með neikvæðum áhrifum á umhverfi, efnahag viðkomandi svæðis eða almannaheill. Eru framandi tegundir metnar sem önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á eftir hreinni og klárri búsvæðaeyðingu.

„Flestar þeirra tegunda eru hingað eru komnar eru frá Evrópu nema grjótkrabbinn. Af þeim tegundum sem gætu orðið ágengar tegundir við Ísland eru grjótkrabbinn, flundra og sandrækja. Það má kannski þegar telja flundruna sem ágenga tegund, en hvort þessar tegundir geti talist ágengar er einmitt eitt af þeim grundvallaratriðum sem við erum að reyna að svara með rannsóknum okkar,“ sagði Halldór en það sem vantar eru grunnupplýsingar um lífríkið á grunnsævi og almennt á lífríkinu við Ísland, útskýrði hann og gerir vísindamönnum erfitt um vik að greina áhrif þessara tegund hér við land.

„Það er þó þegar ljóst að þessa tegundaflutninga af völdum manna þarf að taka mjög alvarlega,“ sagði Halldór.

Dæmafá aðlögunarhæfni
Halldór lýsti því að grjótkrabbinn hefur dæmafáa aðlögunarhæfni. Hann getur sætt sig við hitastig í sjó sem er á bilinu núll til 32 gráður, en er algengastur þar sem hitinn er fjórar til 14 gráður. Dýpið lætur hann ekki heldur vefjast fyrir sér en hann finnst frá fjöruborði niður á allt að 751 metra dýpi. Helst velur hann sér þó búsetu á átján til 390 metrum og þá á grjót- leðju eða sandbotni, allt eftir aðstæðum. Hann étur svo allt sem að kjafti hans kemur – hann er alæta. Grjótkrabbinn er líka frjósamur. Fullvaxið kvendýr getur alið af sér á fjórða hundruð þúsund egg, sem hún reyndar burðast með álímd afturbolsfótum sínum í allt að 10 mánuði, en meðgangan ræðst að hitastigi sjávar á hverjum tíma. Þroskunartími lirfa er þannig 16 dagar við 24 gráðu heitan sjó og 50 dagar við tíu gráður sem á þá frekar við um íslenska stofninn.

Ný tegund
„Eftir að grjótkrabbinn fannst við Grundartanga í ágúst árið 2006 fórum við þangað aftur, með Pálma Dungal og fleiri köfurum, og fundum nokkra krabba í viðbót inni í Hvalfirði. Í kjölfarið hófust bæði rannsóknir á lirfum og gildruveiðar í rannsóknaskyni. Það sem er mjög merkilegt og áhugavert í þessu samhengi er að finna nýja tegund og geta rannsakað hann með tilliti til spurninga um hvort um hún verður ágeng eða ekki. En um er að ræða fyrsta landnám krabbans í Evrópu sem við getum fylgst með nánast frá upphafi,“ sagði Halldór en strax árið 2007 og 2008 hófst lirfusöfnun í Hvalfirði og henni hefur verið haldið áfram nánast óslitið síðan. Strax þá var ljóst að útbreiðsla krabbans var hafin af krafti, því við óskyldar marglytturannsóknir fundust lirfur grjótkrabba í Patreksfirði.

Lirfurek
Sindri fékk fund grjótkrabbans svo að segja í fangið á námsárum sínum, og rannsakaði grjótkrabbann  bæði í meistara- og doktorsverkefni sínu.

Niðurstöður hans sýna að krabbinn hefur á þessum stutta tíma farið allt frá Faxaflóa og norður í Eyjafjörð, en á því svæði eru um 70% af strandlengju Íslands.

„Þessi hraða útbreiðsla hefði ekki getað átt sér stað nema fyrir strandstrauminn sem liggur réttsælis með landinu og lirfurnar berast með honum. Landnámið gengur hægt suður um, því þar þurfa fullorðnir krabbar einfaldlega að nema ný svæði á fæti. Nú erum við líklega komin að útbreiðslumörkum á Norðurlandi miðað við líffræði krabbans, því lirfurnar þurfa hita yfir tíu gráðum í yfir 50 daga til að ná þroska. Fyrir norðan og austan er of kalt, en hvað gerist í framtíðinni er stórt spurningamerki. Á hlýnun við Íslandsstrendur eftir að breyta þessu? Erum við mögulega að fara að sjá hluta af grjótkrabbanum sem fer að þola meiri kulda en í upprunalegum heimkynnum sínum?“ spurði Sindri en greinlegar breytingar eru á veiði á grjótkrabba á rannsóknatímabilinu miðað við aðrar krabbategundir.

„Strax í upphafi var hlutur grjótkrabba meiri en helmingur af veiðinni. Þetta hefur aðeins aukist með árunum og í dag er veiðin meira en 75% af aflanum,“ sagði Sindri en það sama á við um lirfur hans. Í upphafi fengust tvær lirfur á rúmmetra vatns en núna eru þær átta til ellefu. Um er að ræða allt að fimmföldun á fjölda lirfanna, og því ljóst að töluvert er að breytast – krabbinn er að styrkja stöðu sína.

Stærri en í Ameríku
Sindri sagði frá því að í afla í gildruveiði í Borgarfirði er grjótkrabbi 99% alls sem í gildrurnar kemur. Þetta eru afar merkilegar tölur, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Stærðarmunur krabbans er líka áhugaverður. Í Borgarfirði er meðalstærð á krabba þrettán sentímetrar í skjaldarbreidd.

„Þetta er meðalstærð. Krabbar í hans náttúrulegu heimkynnum við austurströnd Norður-Ameríku fást víða ekki stærri en þrettán sentímetrar. Þetta eru því gríðarstórir einstaklingar krabbans sem veiðast hér. Krabbinn er stærri í Borgarfirði en annars staðar hér við land,“ sagði Sindri en engin svör eru til við spurningunni af hverju grjótkrabbanum líður svo vel í firðinum. Hvort það er botngerðin, mikið ferskvatn sem í hann rennur eða annað.

„Við sjáum af þessu að bæði er grjótkrabbinn orðinn mjög útbreiddur og hann er að veiðast í miklu magni í gildrur.

Vilja veiða krabba
Í framhjáhlaupi má skjóta því að hér að á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda barst áskorun um að sambandið beitti sér fyrir því að möguleikar til humarveiða í gildrur yrðu kannaðir. Ein helstu rökin sem nefnd eru í fundargögnum LS eru að öflug skip gangi nærri humarmiðunum og því tækifæri til að opna fyrir nýjungar í veiðum smábáta við Ísland.

Það er auk þess nefnt að samhliða humarveiðum í gildrur væri samhliða mögulegt að þróa veiðar, vinnslu og markaðssetningu á grjótkrabba. Í greinargerð fundarins segir: „Grjótkrabbi er ný nytjategund innan veiðilögsögu Íslands og finnst hann nú í miklu magni í Faxaflóa. Ljóst er þó að löng og kostnaðarsöm þróunarvinna er framundan í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á grjótkrabba áður en nýting á honum verði arðbær. Ómögulegt er fyrir smábátaeigendur að standa straum af kostnaði við slíka þróunarvinnu,“ segir þar og bætt við að með því að heimila humarveiðar í gildrur upp að vissu marki samhliða veiðum á grjótkrabba væri hægt að dekka hluta þess kostnaðar og hvetja útgerðarmenn til frekari þróunarvinnu við nýtingu á grjótkrabba sem í framtíðinni yrði sjálfbærar og umhverfisvænar veiðar.

Fyrir löngu liggur fyrir að grjótkrabbi er lostæti.

Þúsundir krabba
Til að meta hversu þaulsetinn krabbinn er var gerð tilraun til að merkja hann í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Valið var svæði í Kollafirði þar sem er mjúkur leðjubotn, sem er kjörsvæði krabbans. Rannsóknartíminn var septembermánuður árin 2011 til 2014; farnar voru fimm ferðir í hvert skipti með alls tuttugu gildrur, sem voru látnar liggja í 48 tíma. Heildarveiðin var 6.475 krabbar sem voru merktir og 155 af þeim veiddust aftur, sem var framar vonum.

„Niðurstöður úr merkingunum sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Þéttleiki hans þar er einn sá hæsti sem vitað er um fyrir tegundina, 0,5 krabbar á fermetra botns sem er afar mikið,“ sagði Sindri en grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland.

Kjölfestuvatn
Það þykir sannað að grjótkrabbi barst hingað með kjölfestuvatni skips eða skipa. Straumar í Norður-Atlantshafi eru mjög áhagstæðir og tæki grjótkrabbalirfu um 600 daga að berast hingað frá austurströnd Ameríku. Það er lagt um lengri en þroskunartími hennar er, svo sú tölfræði gengur ekki upp. Ekki kom hann labbandi – á milli Íslands og heimkynna krabbans eru tvö þúsund kílómetrar í beinni línu og mun meira dýpi en tegundin þolir. Ekkert í hefðbundnum ferðum flutningaskipa í ferðum hér á milli mælir hins vegar gegn því að lirfan hafi borist hingað með kjölfestuvatni, hvar hún getur auðveldlega lifað í góðu yfirlæti. Þetta hefur verið sannað með rannsóknum á kjölfestuvatni skips þar sem lifandi grjótkrabbalirfur voru margar í kjölfestuvatni skips sem fór frá Bandaríkjunum til Bretlands, þar sem tegundin hefur þó ekki náð að nema land.

Sá íslenski
Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans hefur nú bæði verið skoðaður innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland, en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar hefur verið skoðaður.

„Niðurstöður rannsóknanna sýna fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður Ameríku og hér eru engin merki um landnemaáhrif. Þessar niðurstöður komu okkur á óvart,“ sagði Sindri en þetta þýðir að enn er ekki sannað hvaða stofn amerískur er hér á ferðinni þar sem íslenski stofninn er erfðafræðilega frábrugðinn þeim sem hafa verið rannsakaðir ytra.

„En hver er staðan í dag. Við erum komin með stofn sem er mjög útbreiddur. Hann er í miklum þéttleika á hans kjörsvæði sem er mjúkur botn. Þessi stofn virðist örugglega vera kominn til að vera og við vitum ekkert um það hvaða áhrif það kemur til með að hafa á lífríkið,“ sagði Sindri.