Veiðar hafa verið stundaðar á grjótkrabba á tveimur bátum frá Akranesi sem m.a. hefur leitt til nýstofnaðs félags sem heitir Akranes Seafood. Til þessa hafa verið veidd 70-80 tonn af þessum nýjasta landnema í sjónum í nágrenni Akranes og hefur megin hluti aflans verið unninn hjá Royal Iceland í Njarðvíkum, Reykjanesbæ. Fyrsta prufusendingin fór til Bandaríkjanna og hafa greiðslur borist fyrir hana.

Fyrirtækið hefur tvo síðastliðna vetur skoðað málið út frá veiðum og veiðarfærum og haldið úti gildruveiðum á grjótkrabba á tveimur bátum. Gott samstarf hefur verið við Royal Iceland, fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í veiðum og vinnslu á óhefðbundnum tegundum. Talsverð vinna hefur farið í að skoða markaði fyrir ferskan grjótkrabba í góðri samvinnu við Nora á Ísafirði.

Leiddar hafa verið líkur að því að grjótkrabbi, sem er norður-amerísk krabbategund, hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni flutningaskips rétt fyrir aldamótin 2000. Pálmi Dungal kafari fann fyrsta fullorðna grjótkrabbann árið 2006 í Hvalfirði. Hann hefur hvergi fundist utan náttúrulegra heimkynna sinna nema hér við Ísland. Nú hefur hann breiðst út á um 80% allrar strandlengju Íslands og er í miklum magni á vöktunarsvæðum Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Faxaflóa. Árleg vöktun grjótkrabba á vegum þessara aðila leiddi í ljós að grjótkrabba vex ásmegin í íslenskri náttúru og var hann 95% alls afla í gildruveiðum sumarið 2019.

Landsliðsmenn í hverri stöðu

„Við sendum sýnishorn vestur til Bandaríkjanna og nýliðinn vetur fór einnig prufusending þangað í samvinnu við Royal Iceland. Nú er nýkomin greiðsla upp að ströndum landsins fyrir prufusendinguna,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Akranes Seafood.

Í markaðs- og sölumálum hefur Akranes Seafood notið aðstoðar Sturlaugs Haraldssonar, sölustjóra Norebo, en þess má geta að enn einn Skagamaðurinn, Gísli Gíslason, er stjórnarformaður félagsins og eru Skagamenn sem bera hitan og þungan af veiðunum.

  • Böðvar Ingvarsson, skipstjóri á Emilíu AK, með troðfulla gildru af grjótkrabba. Mynd/aðsend

Guðmundur Páll segir grjótkrabbann kominn í veiðanlegt ástand en menn vilji fara að öllu með gát. Hann segir lífríkið viðkvæmt. Þess vegna hafi verið lögð áhersla á að frá málinu sé gengið með þeim hætti að reglur um gildruveiðar leiði ekki til þess að gengið sé of nærri lífríkinu.

„Við héldum úti gildrum í allan vetur og hér á Akranesi hefur verið landað á milli 70-80 tonnum af grjótkrabba upp úr sjó. Við erum því komnir með ágæta innsýn í það hvernig lífríkið bregst við þessum veiðum. Við höfum líka verið að læra á þessar veiðar út frá veðurskilyrðum og þessi síðasti vetur var enginn venjulegur vetur í þeim efnum. Þegar það er átján metra ölduhæð á Garðskagadufli má gera ráð fyrir öldum inn á Faxaflóa og inn á grunnin sem geta náð allt að 30 metra hæð. Það hefur áhrif á veiðarfærin sem eru á grunnunum. Við höfum því lært heilmikið þennan síðasta vetur,“ segir Guðmundur Páll.

Vettvangur fyrir veiðar

Einnig hefur komið í ljós að í aflanum hefur verið gallaður krabbi. Á sumum stöðum hefur veiðst krabbi með brenndar klær og í Hvalfirðinum hefur borið á því að hrúðurkarlar séu á krabbanum. Sú vinna sem hefur farið fram hefur að stórum hluta beinst að því að kanna áhrif veiðanna á vistkerfið.

  • Akranes Seafood sló upp veislu fyrir strandveiðimenn á Akranesi í lok síðasta strandveiðitímabils. Soðinn krabbi rann ljúflega niður. Mynd/Aðsend

„Við viljum búa til leikreglur á grundvelli þeirrar þekkingar sem við höfum aflað og munum afla. Við finnum og sjáum að með of mikilli sókn er gengið nærri þessum stofni. Verði niðurstaðan sú að veiðar og vistkerfið eigi samleið höfum við Skagamenn áhuga á því að þarna verði til vettvangur fyrir veiðar á minni bátum.“

Tveir bátar hafa verið á grjótkrabbaveiðum í gildrur á vegum Akranes Seafood, Emilía AK 57 og Ingi Rúnar AK 35. Akranes Seafood sló upp veislu fyrir strandveiðimenn á Akranesi í lok síðasta strandveiðitímabils. Borinn var fram soðinn grjótkrabbi og meðlæti og mæltist þetta vel fyrir. Hugsanlega er þarna komin vísir að hefð eins og menn þekkja frá Höfn í Hornafirði þar sem slegið var upp humarveislum þegar betur áraði í humarveiðum.