Óðum styttist í að eldi á kolkröbbum hefjist á Kanaríeyjum, en þar er ætlunin að ala allt að 3.000 tonn af kolkrabba árlega. Það er spænska sjávarútvegsfyrirtækið Nueva Pescanova sem stendur fyrir þessu. Fréttavefurinn Seafoodsource.com greinir frá.

Eldisstöðin verður sett upp í Las Palmas á eyjunni Gran Canaria, en undanfarin átta ár hefur fyrirtækið undirbúið þetta verkefni með þróunarstarfi og tilraunum. Nú þegar er búið að ala fimm kynslóðir af kolkrabba í tilraunastöð.

Í fréttatilkynningu segir fyrirtækið að með þessu eigi að tryggja sjálfbært eldi kolkrabba, en vaxandi eftirspurn sé eftir kolkrabba vegna þess hve næringargóð og heilsusamleg fæða kjötið af þeim þykir vera.

Greindir en skammlífir

Áhersla verður lögð á að umhverfi eldisdýranna verði sem líkast því sem þau eiga að venjast í náttúrunni, en aðstæðurnar skapi þeim hættuminna líf en úti í náttúrunni.

Kolkrabbar munu vera býsna greindir en skammlífir. Þeir eru miklir einfarar en í eldisstöðinni á Kanaríeyjum munu þeir búa í óvenju miklu návígi hver við annan. Árlega eru veidd í heiminum um 350.000 tonn af kolkrabba og nýtt til manneldis.

Nueva Pescanova var stofnað árið 2015 á rústum forvera síns, Pescanova, sem varð gjaldþrota 2013. Á sínum tíma var Pescanova mikill frumkvöðull í útgerð og fiskflutningi, og lét meðal annars smíða fyrir sig frystiskip snemma á sjöunda áratugnum, hið fyrsta sinnar tegundar.