Ísland, Færeyjar og Noregur eru þær vestrænu þjóðir sem byggja afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi. Segja má að Ísland standi þar fremst vegna stöðu sinnar í veiðum á villtum fiski, nýtingu og tækniþróun. Noregur standi Íslandi nokkuð að baki í veiðum á villtum fiski og vinnslu en séu fremstir í eldi á heimsvísu.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Klem­ens Hjart­ar, meðeig­anda McKins­ey & Co., á ársfundi SFS.

Hann sagði að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem sjávarútvegur er sjálfbær; alls staðar annars staðar rennur fjármagn úr sjóðum almennings til stuðnings greininni. Framleiðni hér er auk þess meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Þetta og fleira telur Klemens gera sjávarútveginn að „ofuriðngrein“ á Íslandi, þrátt fyrir að vöxtur hagkerfisins hafi verið utan sjávarútvegs síðustu tíu ár. Keppikeflið fyrir komandi ár ætti að vera að halda þeirri forystu sem Ísland hefur í veiðum og vinnslu. Vöxturinn á að koma úr ýmsum áttum en stöðugleiki þarf að liggja vexti til grundvallar.

Telur hann að tvöfalda megi útflutningsverðmæti sjávarútvegs á næsta áratug. Ef þetta er markmiðið er nauðsynlegt að ná fram verðhækkunum á lykilafurðum í gegnum skipulagt markaðsstarf og vörumerkjauppbyggingu, sem  hafi setið á hakanum. Nefndi hann að á sama tíma og verð á þorski hefur hækkað um 20%, síðustu tvo áratugi, hefur verð á laxi hækkað um 115%. Verðmætaaukningin er háð því að skapa vörunni sérstöðu, eins og gert hefur verið með margvíslegar vörur sem eru heimsþekktar. Í síbreytilegum heimi sé nauðsynlegt að hugsa markaðssetningu upp á nýtt.

Fyrirmyndin til staðar

Hann sagði að til að auka enn frekar hagkvæmni greinarinnar þurfi að færa sem flesta aðila innan hennar nær því sem best gerist í gegnum hagræðingu, samstarf og samþættingu, og vísaði sérstaklega til stærðarhagkvæmni fyrirtækja. Uppsjávarveiðar gætu verið hér fyrirmynd annarrar útgerðar. Sama eigi við um fiskvinnslur þar sem þær stærri skili betri afkomu en þær minni. Hátæknivinnslur eru framtíðin, að hans mati.

Varðandi það að auka magn sjávarafurða er tvennt í stöðunni; ábyrgð í veiðum og uppbygging fiskistofna og uppbygging fiskeldis.

Klemens sagði að veiði á villtum stofnum sé á réttri leið.

„En það þarf að auka hafrannsóknir langt umfram það sem nú er gert. Það þarf að styrkja vísindin. Það þarf að styrkja eftirlitið. Ef þetta væri gert er ekkert ólíklegt að það væri hægt að auka veiðar á villtum fiski úr sjó,“ sagði Klemens og nefndi að slík viðbót gæti aukið útflutningsverðmæti um 50 milljarða króna á ári.

Allt standi þó og falli með sterkum grunni og þar sé fiskveiðistjórnunarkerfi sem sé í fremsta flokki á heimsvísu. Það séu enn tækifæri að bæta það frá því sem nú er en mikilvægast af öllu sé að varðveita styrkleika þess.

„Eins er hinn samfélagslegi þáttur í stöðugleikanum mikilvægur. Það hefur ríkt neikvæðni í kringum sjávarútveginn og það hefur verið ósætti í þjóðfélaginu, sérstaklega um eignarhaldið. Ég held að það þurfi að taka þetta mjög alvarlega því það gæti tekið stuttan tíma að breyta kerfinu í þá átt sem væri ekki íslensku þjóðinni fyrir bestu,“ sagði Klemens.

Myndir frá fundinum má nálgast hér í samantekt SFS.