Borin hafa verið kennsl á tæplega eitt þúsund mismunandi háhyrninga sem ljósmyndaðir voru við Snæfellsnes. Þetta sýnir ný skýrsla Orca Guardians og Náttúrustofu Vesturlands.

Í tilkynningu segir að greint er á milli háhyrninga út frá stærð og lögun bakhyrnunnar og grás bletts (söðulblettur) fyrir aftan og til hliðar við bakhyrnuna. Hver háhyrningur er einstakur að þessu leyti. Byggð hefur verið upp ítarleg einstaklingaskrá um háhyrninga við Snæfellsnes með því að taka hágæðaljósmyndir af hverjum háhyrningi og vista þær í gagnagrunn, sem notaður er til að skrásetja hvar og hvenær þeir sjást og í hvaða félagsskap.

330.000 myndir

Stofnandi Orca Guardians og starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands og Láki Tours, Marie-Thérèse Mrusczok, greindi um 330.000 ljósmyndir sem teknar höfðu verið í hvalaskoðunarferðum Láki Tours við Snæfellsnes á árunum 2011-2021 og bar kennsl á 961 mismunandi einstaklinga. Af sumum þeirra náðust margsinnis góðar ljósmyndir á þessu tímabili.

Marie bætti í gagnagrunninn ljósmyndum sem hún fékk frá nokkrum öðrum svæðum við Ísland, þar á meðal Steingrímsfirði, Ísafirði, Látrabjargi, Skjálfanda, Borgarfirði eystri, Hvalfirði, Grindavík, Faxaflóa og Vík. Við það hækkaði heildarfjöldi mismunandi einstaklinga í þessari skrá upp í 987. Þetta er mikil aukning frá fyrri útgáfu sem birt var árið 2017 og innihélt 322 einstaklinga. Tölurnar endurspegla ekki fjölgun háhyrninga, heldur nákvæmari skráningu.

Þessi skrá yfir einstaka háhyrninga er afrakstur átta ára vinnu og er notuð sem verkfæri til að stuðla að verndun og langtímarannsóknum á íslenska háhyrningastofninum. Hún er undirstaða þeirra rannsókna sem nú standa yfir og halda munu áfram næstu ár.

Nánari umfjöllun og myndir á heimasíðu Orca Guardians: https://orcaguardians.org/orca-id-catalogues/.