Kauptilboð sem Ríkiskaup samþykktu í varðskipin Tý og Ægi í apríl síðastliðnum eru fallin úr gildi þar sem bjóðandi náði ekki standa við kauptilboðið. Helena Rós Sigmarsdóttir, lögfræðingur á eignaumsýsludeild Ríkiskaupa, segir að samningsumleitanir um sölu á skipunum standi yfir núna.
Hún segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að selja skipin til niðurrifs heldur sé leitað nýrra kaupenda. Litið er svo á að ekki sé fullreynt að selja skipin meðan enn þá sé áhugi fyrir hendi.
„Tíminn er hins vegar að renna frá okkur svo það verður tekin ákvörðun um framhaldið fljótt. Salan á skipunum hefur tekið alltof langan tíma og það verður farið að leita annarra lausna ef ekki tekst að selja þau innan skamms tíma. Ef farin verður sú leið að draga skipin út til niðurrifs þarf það að gerast að sumri til. Ég veit ekki hvort Landhelgisgæslan sé tilbúin að bíða eftir því að skipin seljist annan vetur til viðbótar,“ segir Helena Rós.
Samkvæmt kauptilboðinu sem var samþykkt í vor ætlaði einn aðili að kaupa bæði skipin. Kaupandinn var íslenskur en nafn hans var ekki gefið upp né heldur kaupverðið. Kauptilboðið var bindandi. Í byrjun febrúar greindi Morgunblaðið frá því að tvö tilboð hefðu borist í skipin. Það hærra hljóðaði upp á 125 milljónir króna og það lægra 18 milljónir króna.
Varðskipið Ægir var smíðað í álaborg í Danmörkuk árið 1968 og breytt í Póllandi árin 1997, 2001 og 2005. Ægir var stór þátttakandi í þorskastríðunum þegar landhelgin var færð út í 50 og 200 sjómílur. Ægir var fyrst íslenskra varðskipa til að beita togvíraklippum á landhelgisbrjót. Skipinu var lagt árið 2015.
Varðskipið Týr kom til Reykjavíkur í fyrsta sinn 24. mars 1975 og var þá fullkomnasta skip Íslands og jafnframt það dýrasta. Það kostaði um einn milljarð króna komið til landsins. Það lenti í miklum átökum þegar landhelgin var færð út í 200 sjómílur og sigldu bresk herskip margsinnis á skipið. Alvarleg billun varð í varðskipinu og ljóst að viðgerð yrði kostnaðarsöm.
Fimmtungur af kostnaði
Vorið 2021 efndu Ríkiskaup og Landhelgisgæslan til útboðs vegna kaupa á nýju varðskipi sem skyldi bera nafnið Freyja. Fimm tilboð bárust í smíðina en að endingu var tilboði tekið í skip sem smíðað var í Suður-Kóreu árið 2010 og nýtt sem þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn. Heimahöfn nýja varðskipsins er Siglufjörður.
Fiskifréttir höfðu spurnir af því að áhöfn Freyju lýsi því sem „frábæru skipi“ og standist það allar væntingar og vel það. Því virðist sem stjórnvöld og Landhelgisgæslan hafi tryggt sér frábært björgunartæki fyrir fimmtung þess kostnaðar sem til hefði fallið ef ákveðið hefði verið að láta smíða nýtt skip fyrir Gæsluna. Er þá ótalinn sá tímasparnaður sem er augljós en smíðatími slíks skips, þegar útboðs- og hönnunarferli er tekið með í reikninginn, hefði sennilega verið 3-4 ár í stað þeirra 9 mánaða sem liðu frá því að ákvörðun um kaupin á Freyju voru tekin og þangað til hún sigldi inn til heimahafnar á Siglufirði í byrjun nóvember 2021.