Kjartan Páll Sveinsson tók við formennsku í Strandveiðifélagi Íslands á aðalfundi fyrir 5. mars síðastliðinn. Félagið var stofnað fyrir ári og hefur sett sér það markmið að berjast fyrir rétti almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur.

„Strandveiðikerfið er í rauninni eini angi fiskveiðistjórnunarkerfisins sem hleypir fólki inn,“ segir Kjartan Páll. „Það er mjög erfitt sem nýliði að ætla að hasla sér völl í sjómennsku í gegnum kvótakerfið. Það þarf að kaupa kvóta og það er rándýrt. Þetta litla kerfi er bara brotabrot af fiskveiðistjórnarkerfinu, en að það sé alla vega til staðar þannig að fólk geti komist inn á eigin forsendum inn í kerfið.“

Dýrt að byrja

Sjálfur hefur Kjartan Páll reynslu af því að vera nýliði í þessu kerfi því hann byrjaði á strandveiðum árið 2020.

Kjartan Páll Sveinsson, nýr formaður Strandveiðifélags Íslands.
Kjartan Páll Sveinsson, nýr formaður Strandveiðifélags Íslands.

„Maður þarf náttúrlega að útvega sér skipstjórnarréttindi fyrst. Það fara einhverjir hundrað þúsund kallar í það. Svo þarf maður að kaupa sér bát og veiðarfæri. Það fara einhverjar milljónir í það. Startpakkinn er kannski svona tíu milljónir, ef maður gerir það vel. Það er kannski hægt að komast upp með fimm, en ég mæli ekki með því. Ætli maður sé þá ekki svona tvær vertíðar að komast út á núlli, en ef maður kaupir sér kvóta þá erum við að tala um áratug plús að koma út á sléttu.“

Hann segir þetta hafa verið gamlan draum, að komast aftur á sjóinn.

„Ég var alltaf á grásleppu með afa mínum á Breiðafirði þegar ég var unglingur. Það var bara mitt sumarstarf. Hann var grásleppukarl og æðarbóndi á Breiðafirði. Alveg síðan þá hefur þetta bara verið draumur að komast á sjóinn. Þetta er yndislegt starf, því þótt þetta sé erfið vinna þá er það bara engu líkt að sigla út úr höfn og á fiskimiðin.“

Glufa opnaðist

Draumurinn gat þó ekki ræst fyrr en strandveiðikerfið var tekið upp árið 2009.

„Allt hitt er lokað. Þegar ég var kominn til vits og ára þá var bara allt komið í lás og ég sá ekkert fram á að þetta væri neitt hægt, að verða trillukarl. Þannig að ég fór í aðra átt, menntaði mig og fór alla leið í því. En svo opnaðist þessi glufa og ég stökk bara á það.“

Kjartan Páll er félagsfræðingur að mennt, starfar á veturna sem aðjúnkt í Háskóla Íslands en gerir svo út á strandveiðar frá Grundarfirði á sumrin.