Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að uppruna landsels sé að finna í Norðaustur-Kyrrahafi og þaðan hafi hún flutt sig til Norður-Atlantshafs meðfram nyrsta hluta Ameríku og loks frá Norðaustur-Ameríku yfir til Evrópu.

Mikill erfðafræðilegur munur er í dag á milli landsels í N-Kyrrahafinu og N-Atlantshafinu. Þá bendir erfðafræðilegur munur til sterkra átthagatengsla hjá tegundinni. Þannig er til dæmis íslenski landselastofninn erfðafræðilega frábrugðinn öðrum landselastofnum.

Víðtæk rannsókn

Nýlega birtist grein um uppruna og skyldleika mismunandi stofna landsels út frá erfðafræðilegum rannsóknum í vísindaritinu Molecular Ecology. Greinin ber heitið „Origin and expansion of the world’s most widespread pinniped: Range-wide population genomics of the harbour seal ( Phoca vitulina )“.

Sandra M. Granquist, sérfræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofununar, er einn höfunda greinarinnar.

„Landselur er ein útbreiddasta selategund heims og finnst í mörgum fjölbreyttum búsvæðum á norðurhveli jarðar. Á sama tíma er tegundin talin vera mjög staðbundin sem vekur upp spurningar um hvernig dreifing tegundarinnar hafi átt sér stað og mismunandi stofnar myndast. Í rannsókninni voru erfðasýni greind úr 286 landselum frá alls 22 mismunandi hafsvæðum, þar á meðal við Ísland, og þau borin saman,“ segir í frétt Hafrannsóknastofnunar.

Ekki svipur hjá sjón

Eins og Fiskifréttir hafa reglulega greint frá þá hefur íslenski landselsstofninn gefið verulega eftir á síðustu árum. Þetta sýnir glögglega nýtt mat á stofnsstærð landsels við Ísland sem lá fyrir í nóvember í fyrra. Ráðgjöfin byggði á mati á stærð landselsstofnsins við Ísland sem Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands, vann og byggði á talningum sem fram fóru sumarið 2020.

Samkvæmt matinu er stofninn um 10.300 dýr sem er 69% færri dýr en árið 1980 þegar fyrstu talningar fóru fram. Matið sýnir um níu prósent fjölgun í stofninum frá árinu 2018 þegar sambærilegt stofnstærðarmat var síðast unnið.

Benda niðurstöður undanfarinna ára til þess að stærð stofnsins sé að sveiflast nálægt sögulegu lágmarki. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda fyrir landsel við Ísland skal lágmarks stofnstærð vera 12.000 selir. Niðurstöður stofnmatsins í fyrra var því 14 prósent undir þessum markmiðum stjórnvalda.

Hafrannsóknastofnun lagði þá til að beinar veiðar á landsel verði takmarkaðar og að gripið yrði til frekari aðgerða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar. Það yrðir gert til að stuðla að því að stofnstærð nái aftur stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda. Jafnframt lagði stofnunin til að reynt verði að takmarka möguleg truflandi áhrif af athöfnum manna á landsel, sérstaklega yfir vor- og sumarmánuðina þegar kæping og háraskipti eiga sér stað.