Rannsóknar- og þróunarverkefnið Farfish – sem stjórnað er af Matís - hefur hlotið veglegan styrk til að bæta umgengni evrópska fiskveiðiflotans á hafsvæðum utan Evrópu. Alls eru fimm milljónir evra til skiptanna, en íslenskir þátttakendur fá í sinn hlut 1,5 milljónir evra eða 176 milljónir íslenskra króna að núvirði.

Í FarFish verkefninu taka þátt 21 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr Evrópu, Afríku og S-Ameríku. Að auki hafa fjöldi alþjóðlegra stofnanna og fulltrúar einstakra ríkja sem málið varðar skuldbundið sig til aðkoma að verkefninu eftir því sem þurfa þykir.

Verkefnastjóri er Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi virðiskeðju rannsókna hjá Matís, en auk hans mun fjöldi annarra starfsmanna fyrirtækisins koma að verkefninu.

Matís og Sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna, sem staðsettur er hér á Íslandi, eru meðal þátttakenda í FarFish. Verkefninu er ætlað að stuðla að bættri umgengni evrópska fiskveiðiflotans um hafsvæði utan Evrópu, auka þekkingu á þeim fiskistofnum sem flotinn sækir í á þeim svæðum, greina þær virðiskeðjur sem snúa að afla þessara skipa, sem og að auka þekkingu á fiskveiðistjórnun meðal hagaðila sem að þessum veiðum koma; það er bæði meðal viðeigandi strandríkja og evrópskra hagaðila.

Fimmtungur utan Evrópu

„Um 20% af afla evrópska fiskveiðiflotans er fenginn utan evrópskra hafsvæða. Þessi afli er meðal annars fenginn á alþjóðlegum hafsvæðum og innan lögsögu strandríkja þar sem samningar hafa verið gerðir um aðgengi evrópska flotans. Samningar við strandríki eru með nokkrum hætti, og það sem snýr að þessu verkefni beint er annars vegar sérsamningar milli einstakra útgerða og yfirvalda á hverju svæði fyrir sig og hins vegar samningar sem Evrópusambandið gerir við einstök ríki gegn vilyrði um fjárhagslega styrki til innviðauppbyggingar í sjávarútvegi á þeim slóðum. Þessir samningar hafa verið nokkuð umdeildir, þar sem Evrópusambandið og evrópski flotinn hefur meðal annars verið sakaður um að fara ránshendi um auðlindir fátækra ríkja, sér í lagi við vesturströnd Afríku. Til að bregðast við þessari gagnrýni hefur Horizon 2020 rannsóknaáætlunin ákveðið að styrkja rannsókna- og þróunarstarf sem stuðla á að úrbótum á þessu sviði; þar kemur FarFish verkefnið til sögunar,“segir Jónas Rúnar í frétt frá Matís.

Sex hafsvæði

Í FarFish verkefninu verður athyglinni beint að sex hafsvæðum, það er innan lögsagna Grænhöfðaeyja, Máritaníu, Senegal og Seychelleseyja, sem og alþjóðlegra hafsvæða í suðaustur- og suðvestur- Atlantshafi. Safnað verður saman upplýsingum um líffræðilega, vistfræðilega, efnahagslega og félagslega mikilvæga þætti veiðanna og þær upplýsingar gerðar aðgengilegar; fiskveiðistjórnun innan svæðanna verða greind í þaula og komið fram með tillögur að úrbótum; leitast verður við að auka ábyrgð evrópska flotans þegar kemur að nýtingu og upplýsingagjöf; og byggð verður upp þekking á grundvallaratriðum fiskveiðistjórnunar meðal hagaðila í strandríkjunum og innan evrópska fiskveiðiflotans.

Ljóst er að hér er um gífurlega mikilvægt málefni að ræða og að ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Þó er einnig mikilvægt að hafa í huga að takist verkefninu að stuðla að einhverskonar framförum í þessum flóknu og oft á tíðum nær stjórnlausu veiðum, þá mun það geta haft úrslitaáhrif á viðgang mikilvægra fiskistofna og lífsviðurværi fjölda manna, jafnt í strandríkjunum landa utan Evrópu sem og í Evrópu, segir í frétt Matís.