„Við erum búnir að ná utan aðalatriði málsins en það er heilmikil vinna eftir,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum um fyrirhuguð kaup fyrirtækisins á útgerðarfélaginu Ós ehf. og fiskvinnslufyrirtækinu Leo Seafood í Vestmannaeyjum.

Fyrirtækin hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um viðskiptin. Ós gerir út aflaskipið Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Eigendur þess eru Sigurjón Óskarsson, fyrrum skipstjóri, og fjölskylda hans. Leo Seafood er í eigu sömu aðila. Þórunni Sveinsdóttur fylgir 3.749 þorskígildistonna kvóti. Binni segir kaupverðið trúnaðarmál en ljóst er að það hleypur á mörgum milljörðum króna.

Leo Seafood er að byggja 4.500 fermetra byggingu í botni Friðarhafnar sem upphaflega var ráðgert að yrði framtíðar fiskvinnsla fyrirtækisins. Sú bygging fylgir ekki með í kaupunum verði af þeim heldur ætla eigendurnir að reisa þar seiðaeldisstöð í tengslum við fyrirhugað landeldi í Vestmannaeyjum. Kaupsamningurinn fæli hins vegar í sér að Vinnslustöðin eignaðist núverandi fiskvinnslu Leo Seafood sem áður hét Godthaab á Nöf sem nýlega var endurnýjuð frá grunni.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

„Við höfum núna í eitt ár ekki verið með ferskfiskvinnslu sem nokkru nemur í húsunum okkar. Þau eru gömul og lúin og ekki í ástandi fyrir þess háttar vinnslu. Plönin eru þau að við verðum í framleiðslu á frystum og ferskum fisk í Leo Seafood,“ segir Binni.

Leo Seafood er vissulega í gömlum húsum en þau hafa verið endurnýjuð og endurbyggð og með nýjustu vinnslutækni á öllum sviðum, þar á meðal vatnskurðarvélum.

Vinnslustöðin er núna með 4,1% í þorskígildum af heildarúthlutun aflaheimilda og færi í 5,2% við kaupin á Ós. Binni segir að þorskígildi bjagi mjög alla umræðu um sjávarútvegsfyrirtæki. Inni í þessari tölu er til dæmis ekki loðna þar sem engin kvóti hafi verið gefinn út, ekki heldur norsk-íslenska síldin né heldur makríll og kolmunni. Með þorskígildistonnum sé því einungis verið að vísa til hluta af kvótum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Gangi kaupin í gegn eru þrjú sjálfstæð útgerðarfélög eftir í Vestmannaeyjum, þ.e.a.s. Narfi ehf. sem gerir út Maggý VE 108, Bylgja VE 75 ehf. sem gerir út samnefndan ístogara, og Frár VE 78 sem gerður er út af Óskari Þórarinssyni. Síðast keypti Vinnslustöðin útgerðarfyrirtækið Huginn sem gerði út samnefnt fjölveiðiskip í febrúar 2021 ásamt aflaheimildum í síld, loðnu, kolmunna og makríl. Fyrir átti Vinnslustöðin 48% í Hugin.

„Sjálfstæðu útgerðunum fækkar og það er miður. En það er ekki að ástæðulausu. Það er alltaf þessi undirliggjandi hótun um að skattleggja greinina meira, að verðmætin verði rýrð með fyrningu eða skattlagningu eða breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. En við þurfum að standa okkur mjög vel ef við ætlum að gera Þórunni Sveinsdóttur jafn vel út og Sigurjón Óskarsson gerir. Sem segir okkur það að hagkvæmni stærðarinnar á ekki alltaf við. Það er sannleikur í máltækinu Mjór er mikils vísir og þarf þá ekki að horfa í aðra átt en til fyrrum sveitunga míns, Pétur Péturssonar á Bárði SH frá Arnarstapa, til að sjá það. Hann byrjaði sjálfur á fúaspýtu í kringum 1990 og hefur byggt upp öfluga útgerð. Þar fór lítið fyrir hagkvæmni stærðarinnar en meira fyrir dugnaði og útsjónarsemi.“