Víðtækar breytingar hafa orðið í sjávarvistkerfum við Suðaustur-Grænland. Þar hefur undanfarin ár haldið til óvæntur fjöldi langreyða og hnúfubaka á hafsvæðum sem áður voru ísilögð en þetta bendir til þess að umhverfisskilyrði og vistkerfi hafi farið fram yfir ákveðinn vendipunkt.

Vistkerfi við Suðaustur-Grænland einkenndust af miklu magni af rekís en hafa breyst mikið undanfarin ár og áratugi í átt að tempraðara kerfi með auknum sjávarhita og minni hafís sem er nú nánast horfinn yfir sumarmánuðina. Þessar breytingar gera svæðið að hentugra búsvæði fyrir hvalategundir eins og langreyði og hnúfubak, auk makríls, túnfisks og annarra uppsjávarfisktegunda. Fækkað hefur á sama tíma í stofnum norðlægari tegunda, eins og náhvala og rostunga.

Vísindamenn tala um í þessu sambandi „regime shift“ sem er hugtak notað yfir þegar breytingar á vistkerfum fara fram yfir ákveðinn vendipunkt og geta orðið óafturkræfar. Þetta er meðal niðurstaðna vísindarannsóknar sem birtar voru í alþjóðlega vísindaritinu Global Change Biology. Tveir sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur sem lést fyrr á þessu ári, og Andreas Macrander hafeðlisfræðingur, lögðu sitt af mörkum til rannsóknarinnar.

Líklega varanlegar breytingar

Hvarf hafíssins við Suðaustur-Grænland á sér engin fordæmi undanfarin 200 ár þegar mælingar á hafís að sumarlagi lágu fyrir á þessu svæði. Þessi nýju skilyrði munu líklega verða varanleg um ókomna framtíð nema hitastig lækki og rek hafíss frá Norður-Íshafinu aukist aftur. Miðað við fyrirliggjandi gögn um loftslagsbreytingar á 21. öld er sú atburðarrás ólíkleg.

Andreas segir í samtali við Fiskifréttir að auk þess hafi hafís í Norður-Íshafi minnkað gríðarlega mikið jafnt að flatarmáli og þykkt. Samkvæmt líkanaspám frá IPCC, (milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar á vegum Sameinuðu þjóðanna), gæti Norður-Íshafið orðið íslaust innan fárra áratugi á þessari öld. Rannsóknin sem vitnað er til byggir á fjölmörgum langtímaathugunum, þar á meðal mælingum á stofnstærð og útbreiðslu hvala- og fiskitegunda, athugunum á hafís og mælingum á hita og seltu sjávar. Mæligögn frá stöðinni Faxaflói 9, sem Hafrannsóknastofnun aflaði síðastliðin 50 ár í reglubundnum mælingum á ástandi sjávar voru notuð til að meta breytingar á hitastigi og seltu í Irmingerhafinu. Mælingar Hafrannsóknastofnunar á makríl og loðnu voru sömuleiðis nýttar í að kortleggja breytta útbreiðslu uppsjávarfiska í tengslum við hækkandi hitastig sjávar.

Andreas Macrander hafeðlisfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Mynd/Hafrannsóknastofnun.
Andreas Macrander hafeðlisfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Mynd/Hafrannsóknastofnun.

Allt annað vistkerfi

„Hafið á svæðinu við Suðaustur-Grænland er ekki líflaust en þar er allt annað vistkerfi en var áður. Mögulega fylgir þessari breytingu, með auknum fjölda langreyða og hnúfubaka, aukið afrán annarra tegunda. Breytingarnar eru mestar við Suðaustur-Grænland þar sem áður var viðvarandi hafís en er núna að mestu íslaust svæði. Því fylgja gríðarlegar breytingar á vistkerfinu. Breytingarnar í hafinu í kringum Ísland eru minni en þó verða á hverju ári breytingar á hitastigi og seltu með innstreymi Atlantshafssjávar með Irmingerstraumnum vestanlands og því hve mikið af streyminu nær norður fyrir land. En í greininni sem um ræðir má sjá af gögnunum frá Faxaflóa 9 mælistöðinni að hafið hlýnaði frá 1995 til ársins 2000. Síðan þá hefur hitastig Atlantssjávar lækkað aftur og seltan sömuleiðis. Þetta gæti bent til þess að dregið hafi heldur úr Norður-Atlantshafsstraumnum. Að þessu sögðu tel ég að breytingarnar í vistkerfinu í kringum Ísland séu ekki jafn miklar og á svæðinu við Suður-Grænland að undanskildri útbreiðslu hlýsjávartegunda eins og makríls,“ segir Andreas.

Andreas Macrander, hafeðlisfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Myndir/Hafrannsóknastofnun