Tilraunir japanskra stjórnvalda og hvalveiðifyrirtækisins Kyodo Senpaku með opnun sjálfssala á í Tókíó á fjölförnum stöðum sem selja meðal annars hvalkjöt, hafa gefið það góða raun að fjölga á sjálfsölunum til mikilla muna og setja þá upp um allt landið.

Tilraunin er liður í þeirri viðleitni stjórnvalda og hvalveiðifyrirtækja að auka neyslu á hvalkjöti í landinu. Opnaðir voru fjórir sjálfssalar í miðborg Tókíó og nú er stefnt að því að opna 100 nýja sjálfsala víðar í landinu.

Í sjálfssölunum eru seldar ýmsar tegundir hvalafurða, eins og hvala sashimi, hvalasteikur og hvalastöppu í niðursuðudósum sem kallast „yamato-ni“ og Kyodo Senpaku hefur lofað að auka úrvalið enn frekar með hvalkjöti af sporði sem í Japan er hátt verðlagt góðmeti.

Hver skammtur af hinum ýmsu gerðum hvalkjötsrétta kostar á bilinu 1.000 til 3.000 jen, 1.100 til 3.300 kr.

„Salan hefur farið langt fram úr okkar væntingum. Með þessu viljum við koma til móts við þá sem vilja neyta hvalkjöts en vita ekki hvar hægt er að kaupa það,“ segir Mihira, fulltrúi Kyodo Senpaku í samtali við japanska dagblaðið Yomiuri Shimbun.

Neyslan hrunið

Hvalkjöt var iðulega á borðum Japana á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Neyslan náði hámarki árið 1962 þegar hún var 233 þúsund tonn, meiri en bæði nautakjötsneysla (157 þúsund tonn) og kjúklinganeysla (155 þúsund tonn), samkvæmt tölum frá ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í Japan.

Síðan hefur dregið verulega úr neyslu hvalkjöts í Japan. Hún er rétt talin ná um 1.000 tonnum á ári.

„Ef innanlandsneysla eykst ekki munu hefðbundnar hvalveiðar leggjast af og einstæður þáttur í matarmenningu landsmanna hverfa,“ segir Mihira.

Sjálfsalarnir eru nýjasta frumkvæðið til þess að glæða neysluna en áður hafði verið gripið til opinberrar niðurgreiðslu á hvalkjöti í skólamötueytum, útgáfu á uppskriftum og hvatt til matreiðslu hvalkjöts á veitingastöðum.

Japan sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 2019 og hefur haldið áfram hvalveiðum í atvinnuskyni innan lögsögu Japans.