Norska ríkisstjórnin kynnti í morgun áform um að leggja á 40% auðlindaskatt á norsk laxeldisfyrirtæki frá og með næsta ári. Auðlindaskatturinn mun leggjast ofan á hefðbundin tekjuskatt og því mun skatthlutfall fyrir laxveiðar hækka upp í 62%. Sagt er frá málinu á vb.is sem vitnar í frétt E24.no.

Norska ríkið áætlar að auðlindaskatturinn skili ríkissjóði árlega 3,6-3,8 milljarða norskra króna, eða 48-50 milljarða íslenskra króna.

Hlutabréf SalMar, NRS, Lerøy Seafood, Mowi og Måsøval hafa lækkað um 20%-29% í morgun.

Í frétt E24 segir að markaðsvirði eignarhlutar fjögurra stærstu fjölskyldanna í norska laxeldisiðnaðinum hafi lækkað um 12 milljarða norskra króna eða um 160 milljarða króna.

„Ríkið er að ræna ströndinni“

Helge Møgster, stór hluthafi í Austevoll og Lerøy, tjáði E24 að hann óttist að tillaga ríkisstjórnarinnar marki endalok frekari framþróunar í norska laxeldisiðnaðinum.

„Ég er fjúkandi reiður,“ segir Møgster. „Þetta snýst um að ríkið sé að ræna ströndinni.“

Hann spáir því að auðlindaskatturinn muni leiða til þess að fólk muni flýja Noreg. „Fyrirtækjaeigendur eru ekki velkomnir í Noregi, þeir munu flytja erlendis. Ég er sjálfur of gamall fyrir það en það eru margir sem munu bregða á það ráð.“

Hækka auðlindaskatt á vatns- og vindorku

Auk framangreinds auðlindaskatts hyggst norska ríkisstjórnin hækka auðlindaskatt á vatns- og vindorku vegna hækkandi raforkuverðs. Auðlindaskattur á vatnsorku hækkar úr 37% í 45%, sem ríkið áætlar að skili 11 milljörðum norskra króna á ári eða nærri 150 milljarða króna. Þá verði lagður á 40% auðlindaskattur á vindorkuver á landi.

Á móti hyggst ríkisstjórnin niðurgreiða vatns- og vindorku um sem nemur 16 milljarða norskra króna árlega eða um 213 milljarða króna.