Margt hefur verið á huldu um lífshætti hrognkelsa, en James Kennedy og félagar hans hjá Biopol og Hafrannsóknastofnun hafa undanfarin ár unnið ötullega að því að varpa þar ljósi á margt.

Eitt af því sem vafist hefur fyrir fólki er hvort hrognkelsið eigi heldur að teljast til uppsjávarfiska eða botnsjávarfiska. James segir ekki beinlínis einfalt að skilgreina það, þar sem hrognkelsið heldur sig hluta ævinnar nálægt botni við strendur landsins en þess á milli heldur það út á haf þar sem það veiðist gjarnan í uppsjávartroll.

James er fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, búsettur á Skagaströnd þar sem hann er einnig í nánu samstarfi við líftæknisetrið Biopol. Stuttu fyrir áramót hélt hann erindi í Öskju á vegum Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem hann tók saman yfirlit yfir margt það helsta sem vitað er um lífshætti hrognkelsa og greindi frá markverðum niðurstöðum rannsókna sinna.

Ofarlega í hafinu

James nefndi að hrognkelsið komi iðulega í veiðarfæri uppsjávarskipa og í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar hafi hrognkelsi fundist um allt Norðaustur-Atlantshaf, ofarlega í hafinu, og allt þetta bendi óneitanlega til þess að hrognkelsið hegði sér eins og uppsjávarfiskur.

Þetta styður einnig rannsókn sem Rosen og Holst gerðu árið 2013, þar sem myndavélum var komið fyrir í flotvörpu og fylgst með því hvenær og á hvaða dýpi fiskarnir koma í netið. Trollið var látið fara djúpt niður í sjóinn en hrognkelsin komu yfirleitt í pokann þegar hann var á um það bil 50 metra dýpi.

„Stöku fiskar komu dýpra en voru samt á svipuðum slóðum og uppsjávarfiskar halda sig,“ sagði James.

  • Hrognkelsi fundust þar sem bláu punktarnir eru, en ekki þar sem rauðu punktarnir eru. MYND/Hafrannsóknastofnun

Ekki beint straumlínulögun

Hrognkelsið er hins vegar engan veginn líkt neinum uppsjávarfiskum í útliti. Uppsjávarfiskar eru almennt straumlínulagaðir og vöðvasterkir sem gerir þeim kleift að vera á stöðugri hreyfingu til að sökkva ekki, eða þá með sundmaga sem heldur þeim á floti.

Hrognkelsið er ekki með sundmaga og getur engan veginn talist straumlínulaga eða vöðvamikið. Þvert á móti eru þau ekki langt frá því að geta talist hnöttóttar í laginu.

„Þær virka silalegar og svo eru þær með sogblöðku sem þær geta notað til að festa sig við undirlag, sem einnig er vísbending um botnlæga lífshætti.“

Hins vegar hafi hrognkelsið aðra eiginleika sem gerir því mögulegt að halda sér á floti ofarlega í sjónum. Eitt er að beinin ekki sérlega þétt eða sterk. Þéttleiki kalks og annarra steinefna í þeim er lítill þannig að þau sjást vart í gegnumlýsingu. Annað er hve mikið vatn er í vöðvum fisksins, sem gerir það að verkum að líkaminn er nálægt því að hafa sama þéttleika og sjórinn í kringum hann.

„Þess vegna geta þeir fært sig upp eða niður eftir sjónum án mikilla vandkvæða.“

Þau fljóta án þess að hafa mikið fyrir því, og geta þar að auki farið hratt upp eða niður í hafinu án þess að eiga á hættu að sundmaginn þenjist út og springi eins og verða örlög sumra uppsjávarfiska þegar þeir eru dregnir of hratt í veiðarfærum upp á yfirborðið.

Kanna dýptina

James segir að hrognkelsi hafi hins vegar ekki aðeins veiðst í flottroll út um allt Norðaustur-Atlantshaf heldur hafi þau einnig veiðst í nokkrum mæli botnvörpuleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Og þá vaknar spurning um það hvers vegna uppsjávarfiskar, ættu að veiðast í botntroll? Til að fá svör við þeirri spurningu voru fiskar merktir með gagnasöfnunarmerkjum og þeim síðan sleppt lausum.

„Þá sáum við að þeir sýna af sér uppsjávarhegðun, eins og við mátti búast, en auk þess synda sumir fiskarnir líka niður á meira dýpi, fara oft niður að botni en þess á milli upp í efri lögin. Og hvers vegna skyldu þeir gera þetta, fara svona á milli efri og neðri laga?“

Svarið segir hann ekki liggja ekki alveg fyrir, en telur að mögulega geti það tengst því að þeir séu að reyna að rata um, átta sig á dýptinni og finna sér leið til strandar þar sem sjórinn er grynnri.

  • Hér sést hvernig hrognkelsi syndir til skiptis upp að yfirborði og niður að hafsbotni. MYND/James Kennedy

Fleiri rannsókna þörf

Einnig sáust merki þess að hrognkelsin færu að næturlagi oftar í þessar ferðir upp og niður í sjónum. Þessi hegðun sést einnig á því að í botnfiskaleiðöngrum veiðast hrognkelsin frekar að degi til. Skýring á þessu hefur enn ekki fengist, en James telur hugsanlegt að það geti tengst því að hrognkelsið sé að forðast afræningja, eða þá í fæðuleit eða að átta sig á umhverfinu.

„Þetta er eitt af því sem við förum að skoða núna.“

Botnfiskaeðli hrognkelsis sést hins vegar greinilega á því að það er með sogblöðku neðan á skrokknum sem það notar til þess að festa sig við sjávargróður eða annað undirlag.

„Fyrstu fimm til sex mánuðina halda hrognkelsin sig á grunnsævi föst við sjávargróður,“ segir hann. „Síðan færa þau sig smám saman út á opið haf og byrja á því að festa sig við fljótandi sjávargróður og halda áfram að nærast á lífverum sem halda sig innan um sjávargróðurinn. Svo þegar þau nálgast að verða ársgömul losa þau sig frá sjávargróðrinum og hefja frjálst og opið líf úti á hafi.“

Hrygningartíminn óvenju langur

Hér við land er grásleppa veidd á tímabilinu frá apríl og allt fram í ágúst, en James Kennedy segir ljóst að hrygningartíminn sé aðeins lengri og raunar óvenjulangur miðað við flestar aðrar tegundir.

Sumar grásleppur hrygna áður en veiðitíminn hefst, og aðrar eftir að honum lýkur.

„En nú er spurningin hvort hvort fiskar sem hrygna snemma eitt árið hrygni líka snemma næsta ár, og hvort þeir sem hrygna seint geri það líka ári seinna?“

James sagði gögnin úr merkingunum benda til þess að sú sér raunin.

„Þeir fiskar sem eru merktir snemma eitt árið hafa verið endurheimtir snemma næsta ár. Og fiskar sem voru merktir seint voru líka endurheimtir seint.“

Líklega sé það einhver innri taktur hrognkelsanna sem stýrir þessu.

„Þessi taktur er væntanlega að hluta til líkamlegur því eftir hrygningu þarf fiskurinn að ná sér aftur og eggjastokkarnir þurfa að vaxa aftur til að hrygna árið eftir. Þetta tekur tíma og það virðist ólíklegt að fiskar sem hrygna seint á tímabilinu geti náð sér á strik aftur og náð að þroska eggjastokkana nóg þegar næsta hrygningartímabil hefst.“

8.000 hrognkelsi verið merkt

Ekki eru mörg ár síðan hrognkelsi voru talin halda sig alla ævi að mestu leyti nálægt hrygningarslóð á grunnsvæði, en eftir að James hóf fyrir átta árum að merkja grásleppur til að geta fylgst með fari þeirra kom annað í ljós. Þær fara langar leiðir, bæði með ströndinni og eins út um allt Norðaustur-Atlantshaf eins og áður kom fram.

„Hrognkelsin halda sig í tvö til fjögur ár úti á hafi og éta þar marglyttur og kambhveljur og slíkt. Eftir það ná þær kynþroska og halda aftur til strandar til að hrygna.“

Árið 2008 hóf líftæknisetrið Biopol að merkja hrognkelsi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Alls hafa meira en 8000 hrognkelsi verið merkt og mikið af merktum fiski var veiddist stuttu síðar, flestir skammt frá merkingarstað. Um 1% merkta fisksins endurheimtist þó ekki fyrr en ári síðar, sem þýðir að þeir hafa haldið frá strandsvæðunum en komið aftur inn til að hrygna.

„Þetta sýnir að langflestir fiskanna snýr aftur á heimaslóðir, annað hvort í sama flóann þar sem þeir höfðu hrygnt árið áður, en um 25% veiddust aftur í meira en 80 km fjarlægð eða meira en 120 km fjarlægð frá hrygningarstað.“

Margt hefur verið á huldu um lífshætti hrognkelsa, en James Kennedy og félagar hans hjá Biopol og Hafrannsóknastofnun hafa undanfarin ár unnið ötullega að því að varpa þar ljósi á margt.

Eitt af því sem vafist hefur fyrir fólki er hvort hrognkelsið eigi heldur að teljast til uppsjávarfiska eða botnsjávarfiska. James segir ekki beinlínis einfalt að skilgreina það, þar sem hrognkelsið heldur sig hluta ævinnar nálægt botni við strendur landsins en þess á milli heldur það út á haf þar sem það veiðist gjarnan í uppsjávartroll.

James er fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, búsettur á Skagaströnd þar sem hann er einnig í nánu samstarfi við líftæknisetrið Biopol. Stuttu fyrir áramót hélt hann erindi í Öskju á vegum Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem hann tók saman yfirlit yfir margt það helsta sem vitað er um lífshætti hrognkelsa og greindi frá markverðum niðurstöðum rannsókna sinna.

Ofarlega í hafinu

James nefndi að hrognkelsið komi iðulega í veiðarfæri uppsjávarskipa og í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar hafi hrognkelsi fundist um allt Norðaustur-Atlantshaf, ofarlega í hafinu, og allt þetta bendi óneitanlega til þess að hrognkelsið hegði sér eins og uppsjávarfiskur.

Þetta styður einnig rannsókn sem Rosen og Holst gerðu árið 2013, þar sem myndavélum var komið fyrir í flotvörpu og fylgst með því hvenær og á hvaða dýpi fiskarnir koma í netið. Trollið var látið fara djúpt niður í sjóinn en hrognkelsin komu yfirleitt í pokann þegar hann var á um það bil 50 metra dýpi.

„Stöku fiskar komu dýpra en voru samt á svipuðum slóðum og uppsjávarfiskar halda sig,“ sagði James.

  • Hrognkelsi fundust þar sem bláu punktarnir eru, en ekki þar sem rauðu punktarnir eru. MYND/Hafrannsóknastofnun

Ekki beint straumlínulögun

Hrognkelsið er hins vegar engan veginn líkt neinum uppsjávarfiskum í útliti. Uppsjávarfiskar eru almennt straumlínulagaðir og vöðvasterkir sem gerir þeim kleift að vera á stöðugri hreyfingu til að sökkva ekki, eða þá með sundmaga sem heldur þeim á floti.

Hrognkelsið er ekki með sundmaga og getur engan veginn talist straumlínulaga eða vöðvamikið. Þvert á móti eru þau ekki langt frá því að geta talist hnöttóttar í laginu.

„Þær virka silalegar og svo eru þær með sogblöðku sem þær geta notað til að festa sig við undirlag, sem einnig er vísbending um botnlæga lífshætti.“

Hins vegar hafi hrognkelsið aðra eiginleika sem gerir því mögulegt að halda sér á floti ofarlega í sjónum. Eitt er að beinin ekki sérlega þétt eða sterk. Þéttleiki kalks og annarra steinefna í þeim er lítill þannig að þau sjást vart í gegnumlýsingu. Annað er hve mikið vatn er í vöðvum fisksins, sem gerir það að verkum að líkaminn er nálægt því að hafa sama þéttleika og sjórinn í kringum hann.

„Þess vegna geta þeir fært sig upp eða niður eftir sjónum án mikilla vandkvæða.“

Þau fljóta án þess að hafa mikið fyrir því, og geta þar að auki farið hratt upp eða niður í hafinu án þess að eiga á hættu að sundmaginn þenjist út og springi eins og verða örlög sumra uppsjávarfiska þegar þeir eru dregnir of hratt í veiðarfærum upp á yfirborðið.

Kanna dýptina

James segir að hrognkelsi hafi hins vegar ekki aðeins veiðst í flottroll út um allt Norðaustur-Atlantshaf heldur hafi þau einnig veiðst í nokkrum mæli botnvörpuleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Og þá vaknar spurning um það hvers vegna uppsjávarfiskar, ættu að veiðast í botntroll? Til að fá svör við þeirri spurningu voru fiskar merktir með gagnasöfnunarmerkjum og þeim síðan sleppt lausum.

„Þá sáum við að þeir sýna af sér uppsjávarhegðun, eins og við mátti búast, en auk þess synda sumir fiskarnir líka niður á meira dýpi, fara oft niður að botni en þess á milli upp í efri lögin. Og hvers vegna skyldu þeir gera þetta, fara svona á milli efri og neðri laga?“

Svarið segir hann ekki liggja ekki alveg fyrir, en telur að mögulega geti það tengst því að þeir séu að reyna að rata um, átta sig á dýptinni og finna sér leið til strandar þar sem sjórinn er grynnri.

  • Hér sést hvernig hrognkelsi syndir til skiptis upp að yfirborði og niður að hafsbotni. MYND/James Kennedy

Fleiri rannsókna þörf

Einnig sáust merki þess að hrognkelsin færu að næturlagi oftar í þessar ferðir upp og niður í sjónum. Þessi hegðun sést einnig á því að í botnfiskaleiðöngrum veiðast hrognkelsin frekar að degi til. Skýring á þessu hefur enn ekki fengist, en James telur hugsanlegt að það geti tengst því að hrognkelsið sé að forðast afræningja, eða þá í fæðuleit eða að átta sig á umhverfinu.

„Þetta er eitt af því sem við förum að skoða núna.“

Botnfiskaeðli hrognkelsis sést hins vegar greinilega á því að það er með sogblöðku neðan á skrokknum sem það notar til þess að festa sig við sjávargróður eða annað undirlag.

„Fyrstu fimm til sex mánuðina halda hrognkelsin sig á grunnsævi föst við sjávargróður,“ segir hann. „Síðan færa þau sig smám saman út á opið haf og byrja á því að festa sig við fljótandi sjávargróður og halda áfram að nærast á lífverum sem halda sig innan um sjávargróðurinn. Svo þegar þau nálgast að verða ársgömul losa þau sig frá sjávargróðrinum og hefja frjálst og opið líf úti á hafi.“

Hrygningartíminn óvenju langur

Hér við land er grásleppa veidd á tímabilinu frá apríl og allt fram í ágúst, en James Kennedy segir ljóst að hrygningartíminn sé aðeins lengri og raunar óvenjulangur miðað við flestar aðrar tegundir.

Sumar grásleppur hrygna áður en veiðitíminn hefst, og aðrar eftir að honum lýkur.

„En nú er spurningin hvort hvort fiskar sem hrygna snemma eitt árið hrygni líka snemma næsta ár, og hvort þeir sem hrygna seint geri það líka ári seinna?“

James sagði gögnin úr merkingunum benda til þess að sú sér raunin.

„Þeir fiskar sem eru merktir snemma eitt árið hafa verið endurheimtir snemma næsta ár. Og fiskar sem voru merktir seint voru líka endurheimtir seint.“

Líklega sé það einhver innri taktur hrognkelsanna sem stýrir þessu.

„Þessi taktur er væntanlega að hluta til líkamlegur því eftir hrygningu þarf fiskurinn að ná sér aftur og eggjastokkarnir þurfa að vaxa aftur til að hrygna árið eftir. Þetta tekur tíma og það virðist ólíklegt að fiskar sem hrygna seint á tímabilinu geti náð sér á strik aftur og náð að þroska eggjastokkana nóg þegar næsta hrygningartímabil hefst.“

8.000 hrognkelsi verið merkt

Ekki eru mörg ár síðan hrognkelsi voru talin halda sig alla ævi að mestu leyti nálægt hrygningarslóð á grunnsvæði, en eftir að James hóf fyrir átta árum að merkja grásleppur til að geta fylgst með fari þeirra kom annað í ljós. Þær fara langar leiðir, bæði með ströndinni og eins út um allt Norðaustur-Atlantshaf eins og áður kom fram.

„Hrognkelsin halda sig í tvö til fjögur ár úti á hafi og éta þar marglyttur og kambhveljur og slíkt. Eftir það ná þær kynþroska og halda aftur til strandar til að hrygna.“

Árið 2008 hóf líftæknisetrið Biopol að merkja hrognkelsi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Alls hafa meira en 8000 hrognkelsi verið merkt og mikið af merktum fiski var veiddist stuttu síðar, flestir skammt frá merkingarstað. Um 1% merkta fisksins endurheimtist þó ekki fyrr en ári síðar, sem þýðir að þeir hafa haldið frá strandsvæðunum en komið aftur inn til að hrygna.

„Þetta sýnir að langflestir fiskanna snýr aftur á heimaslóðir, annað hvort í sama flóann þar sem þeir höfðu hrygnt árið áður, en um 25% veiddust aftur í meira en 80 km fjarlægð eða meira en 120 km fjarlægð frá hrygningarstað.“