Vestmannaeyingar eru teknir að skoða fyrir alvöru möguleikann á því hefja úthafseldi á laxi út af suðurströnd landsins. Róbert Guðfinnsson spyr hvort Íslendingar ætli að gera þetta sjálfir eða láta aðra verða fyrri til. Gæti orðið að veruleika eftir sex ár.

Ekkert lát ætlar að vera á vexti fiskeldis hér á landi. Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum, er að nálgast 50 þúsund tonn á ári. Gangi áætlanir eftir gæti sú tala farið að nálgast 100 þúsund tonn innan fárra ára, og gangi stórhuga áform um landeldi eftir gæti framleiðslan þar farið úr 8 þúsund tonnum upp undir 120 þúsund tonn á þessum áratug.

Hrafn Sævaldsson, fyrrverandi nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, sem starfar í dag hjá Icelandic Land Farmed Salmon í Vesmannaeyjum, segir allt benda til þess að fiskeldi sé að þróast í þrjá megináttir: Upp á land (landeldi), lokuð eldiskerfi í sjó  og lengra á haf út (úthafseldi). Með þessu losni eldisaðilar við mörg þau vandamál sem reynst hafa sjókvíaeldi erfiðust viðureignar, eða í það minnsta verði mun auðveldara að ráða við þau.

Hér á landi hefur fólk einbeitt sér að sjókvíaeldi og á síðustu árum er vaxandi áhersla á landeldi, en úthafseldihefur  lítið sem ekkert verið í umræðunni á Íslandi. Það gæti þó farið að breytast. Í Vestmannaeyjum komst að minnsta kosti hreyfing á þau mál eftir að Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, flutti erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja í febrúar 2019. Þar sagðist hann sannfærður um að framtíðin í fiskeldi myndi verða í úthafseldi, og aðstæður til þess væru tvímælalaust bestar við suðurströndina.

Miðstöð úthafseldis

„Ég held að úthafseldi verði hér við suðurströndina út af golfstraumnum,“ sagði Róbert í erindi sínu, sem Fiskifréttir sögðu frá á sínum tíma. „Ég trúi því og er nokkuð sannfærður um það að það sé þess virði að menn taki sig saman og byrji grunnrannsóknir á því hverjar eru náttúrlegar aðstæður hér sunnan við Eyjarnar fyrir framtíðar fiskeldi ef þetta er að fara í úthafseldi.“

Vestmannaeyjar geti því orðið mikilvæg miðstöð úthafseldis hér á landi, og það jafnvel þótt vinnsla afurðanna færi ekki endilega öll fram þar.

„Vitandi að þar eru einhverjar bestu aðstæður fyrir laxeldi í heiminum, þá hvatti ég menn til að skoða þetta,“ segir Róbert í stuttu spjalli við Fiskifréttir.

Tekinn á orðinu

Hann var tekinn á orðinu. Á vegum Þekkingarseturs Vestmannaeyja, með stuðningi frá Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi fór af stað athugun á því hvort aðstæður í hafinu við Vestmannaeyjar og víðar suður af landi gætu hentað til úthafseldis og hvað þyrfti til.

Þriggja manna starfshópur var fenginn til verksins, fyrrnefndur Hrafn Sævaldsson, , Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði og Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku. Þeir skiluðu af sér niðurstöðum fyrr í þessum mánuði og kynnt þær á fundi í Vestmannaeyjum fyrir ýmsum hagsmunaaðilum sem gætu komið að framhaldi verkefnisins.

Tómas Már Sigurðsson, Róbert Guðfinnson og Hrafn Sævaldsson kynntu niðurstöður sínar á opnum íbúafundi í Vestmannaeyjum. MYND/Hörður Baldvinsson

„Þessi skoðun leiddi það í ljós að líffræðilegar aðstæður fyrir sunnan Vestmannaeyjar eru álíka góðar eins og í Færeyjum, og þær mælingar sem til eru á ölduhæð virðast ganga upp líka þannig að þær nýju kvíar sem menn eru að þróa núna í Noregi, þær gætu þolað þessa ölduhæð sem er fyrir sunnan Vestmannaeyjar,“ segir Róbert. „Á mannamáli þýðir þetta að menn þurfa að vera á vaktinni, menn þurfa að fara að skoða reglugerðarumhverfið fyrir djúpsjávareldið, því þetta mun koma. Hvenær það kemur það get ég ekki sagt um frekar en einhver annar, en þetta mun gerast hratt þegar það gerist.“

Allt að 60 milljarðar

„Auðvitað þarf mikið fjármagn í þetta,“ segir Hrafn. „Það þarf þolinmóða fjárfesta, þolinmótt fjármagn og einkaaðilar þurfa að draga vagninn. Ríkið og sveitarfélögin geta stutt við þessa vinnu.  En niðurstaðan er alveg skýr. Það eru frábærar aðstæður hérna til að stunda úthafseldi, góðir innviðir og áhugi er fyrir hendi. Við erum ekki að fara að draga vagninn í þessu á heimsvísu, það hafa Norðmenn gert, en við getum gert ákveðna hluti til að hefja undirbúningsvinnuna, s.s.  varðandi: umgjörð, reglur og leyfismál. Við yrðum þá klárir þegar áhugasamir aðilar eru tilbúnir til að setja tíma og fjármuni í þetta.“

Verði undirbúningsvinna hafin fyrir alvöru strax á þessu ári gæti framleiðslan, samkvæmt niðurstöðum starfshópsins, verið komin í fullan rekstur árið 2028. Gert er ráð fyrir að 46 til 60 milljarða króna þurfi í fjárfestingu en tekjur geti orðið hátt í 20 milljarðar króna árlega, fari allt að óskum. Er þá miðað við að framleiðslan nemi um 20 þúsund tonnum á ári.

Allt er þetta þó komið undir því að aðstæður í hafinu henti í raun og veru vel til úthafseldis, og þá var einkum spurt um tvennt: Hitastig sjávar og ölduhæð.

Hvað hitastigið varðar þá búa Vestmannaeyjar að því að hitastig í hafi hefur verið mælt í Eyjum allar götur síðan 1877. Með frekari gögnum má sjá þróun hitastigs í hafinu allt þetta tímabil, og þá kemur í ljós að meðalsjávarhiti pr. mánuð er um 8°C.  Meðalhiti hefur verið hærri frá aldamótum.  Hæsti sjávarhiti við Vestmannaeyjar hefur mælst 13°C pr. mánuð.  Þar með er ljóst að hitastig ætti ekki að standa í vegi fyrir laxeldi í hafi út af suðurströnd landsins.  Þessi mikli og stöðugur sjávarhiti við Vestmannaeyjar sker sig úr á Íslandi og er hann á pari við Færeyjar þar sem aðstæður til laxeldis hafa verið taldar einar þær bestu í heiminum.  Sjávarhitinn við Eyjar getur því gefið ákveðið samkeppnisforskot.

Vegagerðin athugaði sérstaklega aðstæður á nokkrum svæðum suður af landinu sem líklegt þótti að hægt væri að vera með úthafseldi. Þessi svæði eru merkt inn á kortið.
Vegagerðin athugaði sérstaklega aðstæður á nokkrum svæðum suður af landinu sem líklegt þótti að hægt væri að vera með úthafseldi. Þessi svæði eru merkt inn á kortið.

Vegagerðin vann svo sérstakt öldukort fyrir Suðurland ásamt líkindafræðilegri úrvinnslu fyrir 10 staði sem talin voru líkleg til að henta fyrir úthafseldi. Staðirnir voru valdir eftir samtöl við nokkra skipstjóra í Eyjum, sem hver og einn er með áratuga reynslu af fiskveiðum með ólík veiðarfæri við suðurströnd Íslands, til að einangra líklega staði til úthafseldis.

Með hliðsjón af því að í Noregi sé verið að undirbúa úthafsfiskeldi á svæði þar sem búast megi við 15 metra hárri kenniöldu, þá telur Vegagerðin „líkur til þess að finna megi svæði við Suðurströnd Íslands þar sem aðstæður séu síst verri en það.“  Kenniöldur á þessum 10 stöðum voru allar lægri en fyrrgreindar aðstæður í Noregi, en frekari rannsókna er þörf áður en lengra er haldið.

Norðmenn í fararbroddi

„Norðmenn hafa leitt þessa þróun og eru þar í fararbroddi,“ segir Hrafn. „Þar eru hvatar til að fara í svona þróunarvinnu með útgáfu þróunarleyfa. Þessa hvata vantar hér á landi  sem og í Færeyjum.“

Stóri færeyski laxaframleiðandinn Bakkafrost hefur einnig kynnt stórtæk áform um úthafseldi.  Fyrirtækið hefur lagt inn umsókn til stjórnvalda.  Einnig hafa þeir tekið frá umtalsverða fjármuni tilþróunar á úthafseldi.  Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær hjá Bakkafrost.

Fleiri lönd hafa verið með úthafseldi til skoðunar, þar á meðal Skotland, Kína, Ástralía, Bandaríkin, Kanada og Chile.

Í Noregi styrkja stjórnvöld tilraunastarfsemi í úthafseldi fyrstu árin, til að koma verkefnum af stað.

„Menn eru bara tilbúnir í þetta í Noregi og Færeyingarnir eru komnir vel af stað, miklu lengra heldur en við. Þannig að við verðum bara að fara að hefja þessa vinnu og nýta þá forvinnu sem hefur átt sér stað,“ segir Hrafn.

Engin smásmíði

Hrafn bendir á að úthafseldi sé víða stundað í heiminum við misjafnar veðuraðstæður. Hér við land eru veður oft válynd og aðstæður ofansjávar geta verið mjög krefjandi, þannig að öflug mannvirki þarf til að standast það álag.  Einnig er álitlegur kostur að koma eldinu undir yfirborðið til að komast hjá öldumynduðum kröftum.  Mannfólkið hefur ekki bein áhrif á veðuraðstæður en það getur haft áhrif á þróun úthafseldislausna og eldislausnirnar munu þróast.  Menn munu finna lausnir til að auka fiskeldi fjarri landi til að anna þeirri eftirspurn sem er fyrirsjáanleg á komandi árum, sem er einn megin grundvöllurinn undir verkefnið.

Úthafseldisstöðvar eru engin smásmíði og þær stærstu minna helst á olíuborpalla. Ocean Farm 1 er 69 metrar á hæð og 110 metrar að ummáli. Hún á að þola 15 metra ölduhæð og ræður við 6.300 tonna eldi. Næsti áfangi í þróuninni verður Smart Fish Farm, enn stærri eldisstöð sem er í þróun hjá SalMar Aker Ocean, 70 metrar á hæð og getur þolað allt að 31 metra ölduhæð.

Ocean Farm 1 hefur verið í notkun við Noreg í nokkur ár og reynst vel.
Ocean Farm 1 hefur verið í notkun við Noreg í nokkur ár og reynst vel.

Að sögn Hrafns er það Smart Fish Farm eldisstöðin sem menn sjá fyrir sér að hægt væri að nýta hér við land, enda er hún líklega sú eina sem enn er fyrirsjáanleg að muni henta aðstæðum við Suðurland.

Í Noregi eru þetta mörg sömu fyrirtækin sem leiða þróunina og þau sem standa að baki fiskeldi hér á Íslandi. Það er að segja stóru eldisrisarnir SalMar ASA, sem á meirihlutann í Arnarlaxi ehf, Norway Royal Salmon ASA, sem á meirihlutann í Arctic Fish ehf, og  Måsøval Fiskoppdrett AS, sem á meirihlutann í Ice Fish Farm á Austfjörðum.

Sporgöngumenn?

Bæði Hrafn og Róbert segja að hér verði Íslendingar að spyrja sig hvernig þeir vilji standa að verki.

„Ætlum við að vera frumkvöðlar eða ætlum við að vera sporgöngumenn. Ætlum við að bíða eftir því að einhver annar komi að gera þetta?“ spyr Róbert. „Þeir sem byrjuðu í laxeldi á Íslandi, þeir gengu hér á milli Pontíusar og Pílatusar til að fá fjármagn á Íslandi, en það gekk ekki. Að lokum komu bara Norðmenn og tóku þetta.“

Vestmannaeyjar að næturlagi. FF Mynd/Gunnar Ingi Gíslason