Fyrirtækið Mare ehf er um þessar mundir í startholunum með að hefja framleiðslu á vöru sem heitir Mar Flögur, en það eru harðfiskflögur sem minna meira á kartöfluflögur en harðfisk.

„Okkur fannst varan hreinlega of góð til þess að hún færi ekki á markað og standa vonir okkar til þess að hún ryðji brautina fyrir íslenska harðfiskinn á fleiri, nýja markaði í framtíðinni,” segir Helgi Magnússon, einn aðstandenda fyrirtæksins.

Verkefnið var í hópi þeirra sem valin voru til þátttöku í verkefninu Til sjávar og sveita nú í haust, en Til Sjávar og Sveita er svonefndur viðskiptahraðall, ætlaður til þess að styðja við markaðssókn fyrirtækja sem eru tilbúin með vöru eða langt komin í vöruþróun.

„Við erum í raun annað teymið sem kemur að verkefninu en upphaflega var lagt af stað með það árið 2017. Hlutir æxluðust þannig að verkefnið fjaraði út á sínum tíma en þá hafði gríðarleg vinna og tími farið í verkefnið,“ segir Helgi.

Þróað í Djúpinu

Hugmyndin er þróuð í nýsköpunarmiðstöðinni Djúpinu í Bolungarvík. Þar er unnið í skapandi verkefnum allt frá ræktun stórþörunga og yfir í miðlun í viðbótarveruleika. Að baki fyrirtækinu standa þrír æskuvinir úr Kópavoginum, þeir Gunnar Ólafsson, Helgi Magnússon og Ólafur Víðir Ólafsson ásamt Öggu Jónsdóttur.

Stefnt er að því að hefja framleiðslu í smáum stíl fljótlega eftir áramótin, en Helgi segir fjöldaframleiðsluna enn sem komið er stranda á tækjabúnaðinum.

„Sú tækni sem notast er við í dag krefst ansi margra handa og það er ekki nógu hagkvæmt til að hægt sé að fara í mikla framleiðslu,“ segir Helgi.

„Verkefnið er á þeim stað í dag að við leitum leiða til að framleiða hana á sem hagkvæmasta hátt. Allar uppskriftir og útlit umbúða er í dag tilbúið en þetta er síðasti þröskuldurinn sem við eigum eftir að yfirstíga til þess að komast almennilega af stað.“

Helgi segir flögurnar í grunninn vera eins og harðfiskur á bragðið, en áferðin og upplifunin svipuð og þegar borðað er snakk. Nýjungin sé þó ekki fólgin í því að búa til harðfisksnarl, slíkt er til í ýmsum útgáfum, heldur sé þarna á ferðinni próteinrík hollustuvara sem við neyslu minnir meira á kartöfluflögur en fisk. Hráefnið sé samt fiskur og hollustan eftir því.

Laus við lyktina

Boðið verður upp á þrjár bragðtegundir: Ein er saltaður harðfiskur, önnur með chili og hvítlauk en sú þriðja er bacalao sem inniheldur meðal annars ólívur, sólþurrkaða tómata og hvítlauk. Hann segir afurðina alveg lausa við þá sterku harðfisklykt sem truflar suma.

„Hugmyndin var upphaflega sú að búa til flögur sem minna á kartöfluflögur eða þetta venjulega snakk sem allir þekkja, en yrði búið til úr fiski. Okkar von er að þetta gefi fólki möguleika á að bæta fiski inn í mataræðið hjá sér, sem er ekki að borða fisk kannski fyrir.“