„Ísland hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í ábyrgri fiskveiðistjórn enda er sú nálgun arðbærust þegar til lengri tíma er litið. Ísland hefur þar af leiðandi ekki viljað elta Noreg og Færeyjar í óábyrgum einhliða hækkunum hlutdeildar og ótakmarkaðri geymsluheimild,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í svari sínu til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem birt var á vef Alþingis í dag.

„Nýleg stefna þeirra, að auka enn frekar á ofveiðina, er ekki til þess fallin að styrkja stöðu þeirra og orðspor á alþjóðavettvangi, gagnvart neytendum eða við samningaborðið. Ísland hefur lagt áherslu á stöðugleika og haldið sig við óbreytta hlutdeild utan samnings, auk þess að leyfa hóflega geymsluheimild milli ára.“

Sigmundur hafði spurt hvort ráðherra áformi að takmarka geymsluheimild á kvóta makríls við 15% vegna síðasta árs, en Svandís segir að ákvörðun um það verði ekki tekin fyrr en sér fyrir endann á makrílveiðum ársins 2022.

Jafnframt spurði Sigmundur hvort ekki megi vænta þess að „færeyskar útgerðir styrki enn frekar stöðu sína á kostnað þeirra íslensku þegar kemur til samninga um makrílstofninn með tilliti til veiðireynslu.“

„Það er vafasamt að telja það styrkja samningsstöðu að úthluta einhliða kvóta sem ekki tekst að veiða. Frekar mætti telja það sem rök fyrir því að strandríkið hafi stundað ofskömmtun og þurfi að draga í land,“ segir Svandís í svari sínu.

„Það er öllum strandríkjum í hag að í gildi sé alhliða samningur um makrílveiðar með aðgengi að lögsögum hvors annars. Stofninn, og þar með hagsmunir ríkjanna, er ekki varinn nema öll strandríki séu aðilar að samkomulagi. Slíkt samkomulag myndi tryggja besta nýtingu auðlindarinnar með tilliti til gæða afurða og heilbrigði stofnsins. Enginn samningur er í gildi um makrílveiðar eins og stendur,“ segir ennfremur í svari Svandísar.

„Makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafi hafa undanfarin ár farið langt umfram ráðgjöf ICES og það er alvarleg staða sem ógnar stöðugleika stofnsins. Haldi sú þróun áfram tapa allir. Strandríkin sex hafa ekki náð samningum um veiðar innan ráðgjafar en samningaumleitanir eru í fullum gangi og bindur Ísland miklar vonir við að samningar náist fyrir árið 2023. Samningsstaða Íslands í makríl er byggð á vel rökstuddum gögnum í samræmi við þau fjögur viðmið sem tilgreind eru í úthafsveiðisamningnum, þ.e. líffræði, veiði, hæði og framlagi til vísinda. Þau ríki sem koma að þessum veiðum hafa, á vettvangi fiskveiða sem og annars staðar, lagt ríka áherslu á sjálfbærni, ábyrga umgengni og hófsemi í nýtingu auðlinda sinna. Það er mikilvægt að þau orð endurspeglist í aðgerðum.“