Olíu- og gasiðnaðurinn í Noregi nýtir sérstaka tækni við olíu- og gasleit sem felst í að hleypa af kraftmiklum hljóðbylgjum á lágri tíðni til að kanna hafsbotninn. Tæknin er einnig notuð til auka flæði olíu og gass frá svæðum sem eru í nýtingu. Fiskifræðingar vita ekki hvaða áhrif bylgjurnar hafa á fiskistofna en sumir hallast að því að bylgjurnar geti haft áhrif á hrygningarfisk og jafnvel komið í veg fyrir hrygningu.

Í bylgjurannsóknum er hljóðbylgjum í lágri tíðni skotið úr hljóðbyssum sem eru 6 metra undir yfirborði sjávar þaðan sem þær berast niður í berggrunninn.

Lise Sivle, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, segir marga þætti geta haft áhrif á það hvort bylgjurnar valdi truflun í lífríkinu, t.a.m. búsvæði eða hvar fiskistofnarnir haldi sig þá og þessa stundina.

Vísindamenn við stofnunina athuguðu viðbrögð þorsks á beit í Barentshafinu við hljóðbylgjum. Þeir brugðust kröftuglega við áreitinu með því að synda langa leiðir frá bylgjusvæðinu.

„En við gerðum sambærilega tilraun á hrygningarsvæði þorsks og þar sáum við ekki að bylgjurnar hefðu áhrif á þorsk,“ segir Sivle.

Heyrast í 100 km fjarlægð

Í hafinu við Noreg valda bylgjurannsóknir af þessu tagi mestri hljóðmengun í hafinu. Hljóðið frá bylgjunum er á afar lágri tíðni og berst langar leiðir. Allar fisktegundir við Noreg heyra hljóðið frá bylgjurannsóknum í allt að 100 km fjarlægð.

Norska hafrannsóknastofnunin mælir gegn bylgjurannsóknum olíuiðnaðarins innan 37 km frá þekktum hrygningasvæðum meðan á hrygningu mikilvægra tegunda stendur.

Bylgjurannsóknir af þessu tagi eru tíðar í Norðursjó. Atle Magne Nekkøy útgerðarmaður gerir út á síld í Norðursjó. Hann segir flotann forðast þau svæði þar sem rannsóknirnar fara fram því síldin hverfur þaðan á augabragði.

„Við yfirgefum svæðið strax ef við vitum að bylgjurannsóknir fara fram. Bylgjurnar hræða síldina og veiðin dettur niður,“ segir Nekkøy.

Heyrn fiska er á sömu tíðni og hljóðbylgjurnar, eða frá 10-200 hertz. Hljóðbylgjurnar eru afar kraftmiklar og talið að þær valdi heyrnarskaða á sjávarlífverum. Heyrn sjávarspendýra er mjög þróuð og mikilvæg í afkomu tegunda, til að mynda til að finna bráð, maka eða forðast afræningja.