Í Traðarhverfinu í Hafnarfirði og þar í kring er fjöldi  lítilla og meðalstórra sjálfstæðra fiskvinnslufyrirtækja. Þar hefur Fiskifell ehf. verið með vinnslu frá árinu 2008 og í næsta húsi er saltfiskverkunin Útvík og Svalþúfa er á næstu grösum þar sem unnið er úr aukaafurðum af ýmsu tagi.

Hjónin Þorsteinn Jónas Þorsteinsson og Guðrún Antoniussen eiga og reka Fiskifell. Þar er eingöngu unnin ferskur fiskur til útflutnings og helstu tegundir eru þorskur, ýsa og steinbítur þótt aðrar tegundir slæðist með. Einungis þrír starfa við vinnsluna þessa dagana en þegar mikið er að gera fjölgar þeim upp í fimm. Allt er handflakað í flök og hnakka.

Þorsteinn byrjaði ungur að vinna í fiski hjá Útvík sem faðir hans rak. Núna heldur Sigurjón bróðir hans um reksturinn þar og afurðirnar eru saltfiskur úr löngu á Spánarmarkað.

Sömu gjöld

„Ég kaupi allt hráefnið á fiskmarkaðnum. Ætli við séum ekki að vinna 300 til 400 tonn á ári. Við erum með verktaka sem kaupir fyrir mig hráefnið og sér um þá hlið mála. Við hjónin erum bara með fiskinn í höndunum allan daginn og vinnum hann. Þetta er ekki hagkvæm stærð á fyrirtæki í dag. Þetta var auðveldara þegar við byrjuðum. Það varð meira eftir í kassanum,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að allur kostnaður hafi aukist mikið. Það skjóti líka skökku við að lítil fiskvinnslufyrirtæki greiði jafnhá skoðunargjöld á hverju ári hjá Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitinu og stærstu fiskvinnslufyrirtækin eins og Brim eða Samherji. Það muni mikið um þessar fjárhæðir í rekstri lítilla fyrirtækja. Við bætist svo auknar kröfur markaðarins eins og MSC-vottun sem líka þarf að greiða fyrir á hverju ári.

Þá hafi hráefnið hækkað mikið og þótt talsverðar hækkanir hafi orðið á afurðaverðinu haldi það ekki í innanlandshækkanir. Hráefnisverð hafi hækkað hlutfallslega meira en afurðaverðið. Þar hafi ekki síst áhrif mikill útflutningur á óunnum fisk sem Þorsteinn segir að spenni upp fiskverð á mörkuðum.

Flökin vigtuð ofan í frauðplastkassa. Mynd/gugu
Flökin vigtuð ofan í frauðplastkassa. Mynd/gugu
© gugu (.)

„Síðustu eitt til tvö ár hefur þessi spenna til hækkunar aukist að mínu mati. Það eru ekki margir aðilar í útflutningi á óunnum fiski en þeir eru umsvifamiklir.“

Þorsteinn telur líklega að rekja megi þær miklu hækkanir sem hafa orðið á erlendum mörkuðum til minna framboðs og aukinnar eftirspurnar. Minna berist af fiski frá Rússlandi inn til Evrópu og lokað sé fyrir þann útflutning til Bandaríkjanna. Þá sé allt meira að minna komið í fyrra lag hvað varðar eftirspurn frá veitingastöðum og hótelum en sem kunnugt er lögðust fiskkaup frá þeim nánast niður með heimsfaraldurinn geisaði hvað harðast.

Þar sem Fiskifell er eingöngu í ferskum fiski fór fyrirtækið ekki varhluta af heimsfaraldrinum. Fjöldi veitingastaða og hótela lokuðu sem bitnaði á ferskfiskframleiðslu. Margir fiskframleiðendur einfaldlega juku hlut frystra afurða á kostnað ferskra og komust þannig betur í gegnum þessa tíma. Það var einfaldlega ekki í boði hjá Fiskifelli. Nú sé útlitið allt annað og eftirspurn aukist verulega eftir ferskum fiski.

„Við handflökum allan fisk og vinnum hann ýmist í flök eða hnakka. Þetta er bara gamla aðferðin og eina vélin hjá okkur er roðflettivél. Við náum betri nýtingu með þessum hætti og fallegri afurðum að mínu mati. Ferskfiskur sér um að selja afurðirnar fyrir okkur. Þær fara til heildsala á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum og þaðan á veitingastaði og verslanir.“

Sumarið er vertíðin

Hann segir mikilvægast að hráefnið sé fersk. Fiskurinn er keyptur óveiddur á fiskmarkaði og kominn til neytenda tveggja til þriggja daga gamall. Það gerist vart ferskara.

„Sumrin eru vertíðin hjá okkur, sérstaklega í þorski. Norðmenn hafa dælt fiski út á markaðina fyrstu mánuði ársins en klára sinn kvóta í maí. Þá er kallað eftir fiski frá Íslandi. Við tökum því ekki sumarfrí og njótum líka góðs af því að stóru fiskvinnslufyrirtækin farar í frí.“

Mynd/Guðrún Antoniussen
Mynd/Guðrún Antoniussen

Þorsteinn segir talsvert mikið af fiski koma frá strandveiðiflotanum og það sé fínn fiskur. Mikil breyting hafi orðið til batnaðar á meðferð aflans frá því strandveiðarnar hófust. Mun betur sé nú staðið að því að ísa fiskinn og koma honum sem ferskustum í land.

Þorsteinn hefur ekki verið föstum viðskiptum við báta og helgast það einkum af því að hann sækist eingöngu eftir stórum fiski sem vélarnar ráða ekki við. Það auki afköstin verulega í handflökun að vera með stóran fisk. Þetta er 8 kg + fiskur sem er talsvert dýrari en annar fiskur.

„Verðið á þessum fiski var yfir 500 krónur kílóið í gær sem er þó ekki það hæsta sem ég hef borgað fyrir fiskinn. Síðasta haust fór það yfir 600 krónur kílóið.“