Útgerðarfélagið Heimskaupasport í Grímsey fékk nýlega afhentan Cleopatra 44 sem smíðaður var hjá Trefjum í Hafnarfirði. Báturinn, Björn EA, leysir af hólmi bát með sama nafni sem Trefjar smíðaði fyrir sama fyrirtæki og var afhentur 2005. Trefjar hafði milligöngu um sölu á þeim bát til Noregs.

„Við erum búnir að fara í tvo róðra á nýja bátnum en við erum í raun rétt að fara af stað. Afraksturinn í fyrri róðrinum var 6,5 tonn og 4,2 tonn í þeim seinni. Við erum aðallega að sækjast eftir ufsa og við tökum hann allan í net,“ segir Sigurður Henningsson. Hann er skipstjóri á nýja bátnum en með honum í útgerðinni eru bræður hans, Henning og Jóhannes Gísli. Útgerðin byggir á gömlum merg því faðir þeirra, Henning Jóhannesson, var um langt árabil með útgerðina Borgarhöfða í Grímsey. Þeir bræður tóku við keflinu af föður sínum þegar hann dró sig í hlé.

Úr 10 körum í 15

Nýr Björn EA er stærri en sá gamli. Mestu munar um að hann tekur 15 kör í lest á móti 10 körum í gamla bátnum. Þá mun meira pláss fyrir netin því báturinn er aðeins lengri og hærri. Þrír voru í áhöfn gamla bátsins en fjórir eru á þeim nýja.

„Þessir bátar hafa reynst okkur vel. Við höfum gert þann gamla út frá árinu 2005. Hann var enn þá í toppstandi og seldist á augabragði til Noregs. Við höfðum verið einu eigendurnir að bátnum og höfum gengið vel um hann. Trefjar tóku hann frá okkur upp í þann nýja. Eins og með allan tækjabúnað þá er allt í bátnum nýrra og betra. Svo fylgja aukin þægindi fyrir mannskapinn því í lestinni er spil sem getur dregið körin fram og til baka sem auðveldar vinnuna.“

Ganghraðinn skiptir máli

Það er ekki síður ganghraði bátsins sem spilar hlutverk. Sigurður segir að verið sé að keyra hann á 12-13 mílum eins og var líka á eldri bátnum. Á stærri og þyngri bátum væri ekki verið að keyra nema á 8-9 mílum.

„Þegar við höfum verið á grálúðu er lengra að sækja og þá er hentugt að hafa góðan gang til að vera fljótari í förum. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig leigu- og afurðaverðið verður á grálúðu hvort við sækjum í hana næsta sumar.“

Útgerðin reiðir sig á byggðakvóta en megnið af ufsanum er leigukvóti. Sigurður segir hagstætt um þessar mundir að leigja ufsa. Leiguverð hefur verið í kringum 25 krónur á kílóið en á sama tíma hefur verð á ufsa hækkað verulega. Það sé því unnt að leigja 100 tonn á 2,5 milljónir króna það hafa fengist að 200 og alveg upp í 300 krónur fyrir kílóið. Þess vegna sé grundvöllur fyrir þessu útgerðarmynstri núna. Sigurður lítur þó á þetta sem tímbundið ástand því það koma hæðir og lægðir í fiskverð eins og allt annað. Fyrst þegar útgerðin fór að leigja til sín ufsakvóta þóttu menn góðir að fá 120 krónur fyrir kílóið. Það hefur því ýmislegt breyst og greinilega komnir nýir markaðir fyrir ufsann.

Bræðurnir Henning, Jóhannes og Sigurður Henningssynir við nýja bátinn.
Bræðurnir Henning, Jóhannes og Sigurður Henningssynir við nýja bátinn.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ufsinn brellinn

„Ufsinn getur verið brellinn og maður gengur aldrei að honum vísum. Hjá færabátunum í sumar var fínasta kropp kannski í tvo til þrjá daga og svo ekkert í alla næstu viku. Ufsinn getur verið fljótur að hverfa og fljótur að koma aftur líka. Þess vegna er líka gott að vera á hraðskreiðum bát þegar staðan er sú að það þarf að leita ufsans. Við höfum samt verið mjög heppnir með ufsann hérna. Það eru góð ufsamið hérna við eyjuna og stutt að fara, ekki nema 7-8 mílur út á miðin. Landbátarnir eru að stíma þetta 40-60 mílur. Upp á olíukostnað og annað er þess vegna mjög hagstætt að gera út hér.“

Opna bátaverkstæði

Netin eru látin liggja yfir nótt og þeirra vitjað að morgni. Þar sem þeir bræður leggja netin hefur nánast enginn meðafli verið. Aflinn hefur verið hreinn ufsi. Það eru líka hæg heimatökin með landanir því þeir bræður eiga og reka Fiskmarkað Grímseyjar. Þar er öllu landað og reynt að koma fiskinum sem allra fyrst upp á land og sem ferskustum. Þegar ferðir liggja niðri til lands er aflinn slægður og ísaður.

„Á hinn bóginn er það algjörlega glórulaust að ætla að leigja til sín þorskkvóta á 410-420 krónur kílóið. Það er ekkert út úr því að hafa. Tonnið í stærra kerfinu er nú á sex milljónir króna. Það er ekki hvati fyrir okkur að reyna að fjárfesta í einhverjum kvóta.“

Þá eru þeir bræður að setja á stofn bátaverkstæði í eynni svo það er í nægu að snúast. Í Grímsey eru núna þrjár útgerðir sem gera út allt árið, þ.e. Heimskautasport, AGS og Sæbjörg. Þá eru nokkrir minni handfærabátar sem er róið aðallega á sumrin en þó eitthvað á veturna líka.