Kínverjar hafa lengi verið stórtækir við veiðar undan ströndum Afríku, svo mjög að heimamenn óttast í vaxandi mæli um fiskistofnana þar.

BBC fjallaði um þetta nýverið og segir að skipin sem stunda veiðar út af vesturströnd álfunnar komi víðs vegar að, þar á meðal bæði frá Rússlandi og aðildarríkjum Evrópusambandsins, en um tveir af hverjum þremur þeirra séu kínversk.

Fréttamaður frá BBC, Paul Adams, fylgdist með eftirlitsmönnum frá Sierra Leone eltast við togara sem stunda veiðar með tveggja skipa troll. Slík veiðarfæri eru mjög afkastamikil, ná að veiða 60 til 100 tonn á dag, en hafa verið ólögleg í Sierra Leone um níu ára skeið.

Eftirliti er hins vegar mjög ábótavant og ekki hefur tekist að sanna eitt einasta brot síðastliðin sjö ár hið minnst. Það tókst heldur ekki í því tilfelli sem Adams fylgdist með, jafnvel þótt eftirlitsmenn hafi farið um borð í tvö skip sem allt benti til að hefðu stundað tveggja skipa veiðar mánuðum saman.

Percy Showers, yfirmaður á hafrannsóknastofnuninni í Freetown, sagði í viðtali við BBC það hreinlega vera brandara hvernig eftirlitsmenn hafi reynt að réttlæta aðgerðarleysi sitt.

Svipaða sögu er að segja frá veiðum út af austurströnd Afríku. Til að mynda er greint frá því, á vefsíðunni stopillegalfishing.com, að einungis eitt skip frá Mósambík sé meðal þeirra 130 skipa sem fengið hafa leyfi til að stunda túnfiskveiðar út af ströndum landsins.

Evrópulönd ekki saklaus

Evrópuríki eru engan veginn saklaus af því að senda skip sín til veiða á fjarlægum svæðum þar sem ofveiði getur verið vandamál.

Íslendingar hafa tekið þátt í Evrópuverkefni, FarFish, sem miðar að því að finna lausnir á þessum vanda hvað varðar fiskveiðar Evrópuflotans á hafsvæðum sem lögsögur Evrópuríkja ná ekki til. Frá því verkefni var sagt í Fiskifréttum í apríl 2018 í viðtali við Jónas Rúnar Viðarson frá Matís og Mary Frances Davidson frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

„Það stendur eðlilega svolítið í evrópska flotanum að vera að veiðum við hliðina á til dæmis Kínverjum og svo er ætlast til þess að þeir séu að fara eftir einhverjum öðrum reglum en hinir,“ sagði Jónas þá. „Þetta er eiginlega farið að verða stóra vandamálið í þessu verkefni. Hættan er alltaf sú að menn falli niður á lægsta sameiginlega samnefnarann.“

Lausnin sem Jónas sagðist helst sjá fyrir sér á þessum vanda er að það takist að fá Evrópusambandið til að standa sig vel í þessum efnum. Þá muni heimamenn kannski frekar semja við Evrópuflotann en Kínverjana um aðgang.

Í síðasta mánuði útskrufuðst frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík tveir nemendur sem báðir unnu lokaverkefni sín í tengslum við Farfish-verkefnið, og skoðuðu ástand fiskistofna við Grænhöfðaeyjar, Cabo Verde.