Áratugalöng saga þróunarvinnu og tilraunastarfsemi býr að baki eldisstöð Sæbýlis sem nú er að hefja starfsemi í Grindavík. Það var strax árið 1988 sem Hafrannsóknastofnun hóf að gera tilraunir á sæeyrum á eldisstöð sinni á Stað í Grindavík.

Ásgeir E. Guðnason var þá starfsmaður á Hafrannsóknastofnun og fékk mikinn áhuga á ræktun sæeyrna. Hann stofnaði árið 1993 fyrirtækið Sæbýli ásamt félögum sínum og hefur haldið tryggð við verkefnið allar götur síðan þrátt fyrir að brösuglega hafi gengið á köflum.

Heilbrigður klakstofn

„Sæbýli er á þeim stað núna að vera búið að leggja tugi ára í þessa þróun og aðlögun á einni verðmætustu eldistegund heims sem á uppruna sinn við hlýsjávaraðstæður í Japan. Það tekur langan tíma að byggja upp eldisstofn sem og að finna hentugt eldiskerfi til þess að líkja eftir umhverfisaðstæðum sem eru fjarri Íslandi. Hér á landi er þó að finna einstakar aðstæður til þess með aðgangi að jarðvarma, borholu tærum sjó og grænni raforku sem er grunnurinn að einstöku lóðréttu lokuðu eldiskerfi. Svo er það einnig einstakt að sæeyrun eru fóðruð á þörungum sem koma úr okkar nærumhverfi. Það er því þetta einstaka umhverfi sem við erum með á Íslandi, sem gerir þetta kleift,“ segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis.

Hann segir að rétt eins og í laxeldinu, og það gildi um öll önnur eldisverkefni á dýrum, þá hafi þetta verkefni þurft „langan aðdraganda að því að byggja upp klakstofn. Klakstofninn er byggður á innflutningi á villtum sæeyrum og fyrst hófust tilraunir með það fyrir þremur áratugum. Það er á þeirri þrotlausri vinnu uppbyggingar klakstofns, eldistækni og aðlögun fóðurs úr íslenskum þara sem er grunnur uppbyggingarinnar í dag.“

© Guðjón Guðmundsson (.)

  • Sæeyra mun vera verðmætasta eldistegund heims. MYND/Aðsend

Í öllu eldi segir hann lykilatriðið vera að huga vel að heilbrigði dýranna. Hvað sæeyrun varðar þá sé kjörhiti stofnsins um 18 til 20 gráður og þá þurfi að vanda sig sérstaklega.

„Í þessu tilfelli þarf að taka upp villt dýr og ala þau í tvær til þrjár kynslóðir. Hver kynslóð tekur rúmlega þrjú ár og nú erum við sem sagt komin með heilbrigðan klakstofn. Við erum komin með tvær til þrjár kynslóðir og stofn af fjórðu kynslóð þar sem allt hefur gengið eðlilega fyrir sig, og þá ertu tilbúinn.“

200 tonn

Umhverfisstofnun gaf í janúar út starfsleyfi til Sæbýlis sem heimilar eldi á 200 tonnum af sæeyrum í nýjum húsakynnum í Grindavík. Um er að ræða landeldi í lokuðu hringrásarkerfi, svonefndu SustainCycle kerfi sem félagið hefur þróað undanfarin ár sem og aðlagað nýrri tækni sem fleytir fram í vatnsendurnýtingarkerfum í tengslum við aukið eldi á landi.

Í Grindavík hefur Sæbýli keypt 3.200 fermetra húsnæði að Ægisgötu 1, en húsið var upphaflega byggt sem fiskvinnsluhús sem hentar vel enda er eldið matvælaframleiðsla og því auðveldara að aðlaga húsnæðið að nýrri starfsemi félagsins í Grindavík. Boruð hefur verið 40 metra hola við húsvegginn þar sem náð er í ferskan sjó sem síast gegnum hraunlögin og er því einstaklega tær sem hentar vel fyrir eldið. Sæeyrnaeldið byggir síðan á lóðréttri eldistækni þar sem dýrin eru alin í rekkakerfi í húsinu þar sem auðvelt er að hafa eftirlit með þeim.

Endurnýting vatns

„Við erum með borholusjó, við erum með jarðvarma, við erum með græna raforku og þegar þetta allt kemur saman ásamt aukinni þekkingu þá samnýtum við það og erum nú að setja upp vatnsendurnýtingarkerfi fyrir sæeyrun,“ segir Sigurður.

Vatnsendurnýtingarkerfi, skammstafað RAS á ensku, hefur lítið verið notað hér á landi. Nánast allar eldisstöðvar á Íslandi eru með gegnumstreymiskerfi, en Sigurður hefur áður sett upp vatnsendurnýtingarstöð hjá Arctic Fish á Vestfjörðum. Hún er sú eina sinnar tegundar hér á landi.

„Núna er tímabilið þar sem við erum að byggja upp klakstöðina sjálfa, og erum að setja það upp með búnaði sem við erum búnir að vera að vinna saman að á undanförnum mánuðum. Við erum byrjuð á því að undirbúa klak á nægilega miklu af ungviði til þess að standa undir 200 tonna ársframleiðslu. Við munum á næstu rétt rúmum þremur árum vera tilbúin með til sölu á mjög ört vaxandi markaði sæeyrna.“

Dýrasti rétturinn

„Við erum bæði með dýrmætustu tegundina sem er kölluð ezo og er japönsk, svo erum við með þá næstverðmætustu sem er kölluð venjulega red abalone frá Kaliforníu. Flestir þekkja hana, en ezo er samt verðmætust.“

Hann segist ekki reikna með því að neinn markaður að ráði verði fyrir sæeyru hér á landi.

„Hins vegar, ef þú ferð á flottan sushistað þá er þetta dýrasti rétturinn á boðstólum. Þannig að það verður ekki stór innanlandsmarkaður, en þetta er stór markaður erlendis. Í dag er heimsmarkaðurinn á sæeyrum meira en 200 þúsund tonn á hverju ári, og fer stækkandi um rúm 15 prósent á hverju ári. Asía er langstærst, en samhliða sushibyltingunni hefur aukningin líka verið mikil í Bandaríkjunum og Evrópu.“

Grænt verkefni

„Það sem heillar mig persónulega er að hér er um að ræða afar grænt verkefni,“ segir Sigurður, spurður út í hvað heilli eiginlega við sæeyru. „Við búum við þær aðstæður að við náum í fæðuna í bakgarðinum hjá okkur, það eru íslenskir þörungar. Það er uppistaða fæðunnar og það er ekki til betri vél í heiminum til að binda kolefni heldur en akkúrat þarinn. Það eru ekkert allir sem búa við slíkar aðstæður, að vera með slíka hringrás þar sem þú getur á mjög umhverfisvænan hátt endað með matvöru.“

Þetta heillar Sigurð, en hann bætir því við að það sem heilli fjárfesta mest sé væntanlega að þetta sé dýrasta eldistegund í heimi.

„Hún er almennt að seljast á bilinu í kringum 40-50 dollara á kílóið, og það er í lifandi vigt, og svo alveg söluverð yfir 200 dollara á kílóið fyrir stór sæeyru. Okkar mestu verðmæti hjá Sæbýli eru klakstofninn sjálfur. Og það er ekkert sjálfgefið því fæstir sem eru í eldi á sæeyrum eiga sinn eigin klakstofn, en við erum þar og erum engum háðir í því.“

Stækkun framundan

„Já, og í millitíðinni þarf að fara í frekari stækkun og byggja og svona, þannig að við munum væntanlega leita til fjárfesta í því. En grunnurinn er kominn og það er það sem er mikilvægast. Þetta er bara eins og laxeldinu, það byggir á seiðastöðvunum auðvitað, það er mitt mat. Þetta eru sömu elementin.“

Í dag starfa sex starfsmenn hjá fyrirtækinu en Sigurður segir stefnt að því að bæta við starfsfólki þegar framleiðslan verður komin á fullan skrið.

Lykilmaðurinn í starfsemi Sæbýlis segir Sigurður hins vegar að sé Ásgeir Guðnason, sá sem nefndur var til sögunnar hér í byrjun.

„Ásgeir er frumkvöðullinn og hefur alltaf verið sá sem hefur stýrt því. Hann er sá sem skiptir mestu máli í heildardæminu.“