Hefja á stórfellda skógrækt við Miðfjarðará í Langanesbyggð til að tryggja aukið fæðuframboð fyrir villtan lax. Verður það á vegum Six Rivers, félags breska auðmannsins Jims Ratcliffe.

Þetta kemur fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar sem veitt hefur leyfi fyrir ræktunarstarfinu. Svæðið sem ræktunin á að ná til er 199,8 hektarar að stærð.

Í bréfi Kára Lefever, verkefnastjóra skógræktar og landgæða hjá Six Rivers, segir að höfuðmarkmið skógræktarinnar sé að efla lífríki og auðga jarðveg á svæðinu til þess að auka næringarframboð og styrkja vatnavistkerfi Miðfjarðarár og hliðaráa.

Styrkja laxinn sem eigi undir högg að sækja

„Aðal markmiðið er að bæta búsvæði fyrir laxaseiði í ánum svo löxum megi fjölga í vistkerfinu, en aukið næringarframboð og heilbrigðari jarðvegur á svæðinu nýtist öllum lífverum í vatnavistkerfinu í heild. Er það liður í að verja og styrkja Norður-Atlantshafslaxastofninn sem á verulega undir högg að sækja á heimsvísu og hefur þegar orðið útdauður víða á fyrrum útbreiðslusvæði,“ segir Kári sem kveðst ekki vilja vera með heimtufrekju án óski eftir því fyrir hönd Six Rivers að fá heimild Langanesbyggðar til að hefja skógrækt í Miðfjarðarnesseli. „Trjáplönturnar bíða klárar á planinu og kitla í ræturnar að komst í jörð!“

Laufskógur með áherslu á birki og víði

Skógræktarsvæðið í Miðfirði.
Skógræktarsvæðið í Miðfirði.

Þá kemur fram að lögð verði áhersla á að rækta fjölbreyttan og náttúrulegan laufskóg á svæðinu að meginuppistöðu með birki og víði tegundum.

„Einnig verður gróðursett svolítið af reynivið til skrauts, ásamt elri og ef til vill blæösp í grennd við læki þegar fram í sækir. Engin jarðvinnsla verður framkvæmd fyrir gróðursetningu í þessu verkefni og þá er engin slóðagerð fyrirhuguð á svæðinu. Ljóst má vera að inngripsminni skógræktarframkvæmd er vart hugsanleg á Íslandi og ásýnd og útlit svæðisins á meðan á framkvæmdum stendur getur vart orðið mildari. Sexhjól verður nýtt við gróðursetningu trjáplantna en gætt verður að því að valda sem minnstu raski og að öll ummerki grói og hverfi inn í landslagið fljótlega eftir að framkvæmdum er lokið. Áformað er að tvö ár taki að gróðursetja í skógræktarsvæðið sem afmarkað er á kortinu og að svæðið verði full gróðursett í lok sumars 2026,“ segir í bréfinu til Langanesbyggðar.

Hindrar ekki smölun sauðfjár

Í greinargerð Kára segir að nauðsynlegt sé að girða skógræktarsvæðið af til að skógurinn geti vaxið. Girðingin muni ekki hafa heftandi áhrif á smölun fjár á svæðinu og hún muni að sjálfsögðu ekki ná ekki inn á aðrar landareignir.

„Samráð hefur verið haft við sauðfjárbændur á svæðinu vegna girðingaráformanna og upplýsinga leitað til þeirra um göngu búfjár á svæðinu. Ljóst er að þó nokkuð fé sækir í svæðið. Lýst hefur verið að eitthvað af féi sæki að utan frá Miðfjarðarnessi en einnig fé frá Tunguseli og Hallgilsstöðum í Þistilfirði niður af heiðinni að innanverðu. Hafa bændur á þessum jörðum ekki gert neinar athugasemdir við girðingaáformin í samtölum okkar við þá um málið,“ segir í greinargerðinni.

Þá segir að girða eigi mun stærra svæði en tilgreint skógræktarsvæði. „Er ástæða þess sú að á næstu tveimur árum hyggst Six Rivers sækja um leyfi til stækkunar skógræktarsvæðisins með útmörkum allt að því sem nemur legu væntanlegrar girðingar,“ segir Kári Lefever í bréfi sínu.