Loðnuleiðangur norska hafrannsóknaskipsins Kronprins Haakon næstu vikurnar verður heldur styttri en til stóð. Ástæðan er hátt olíuverð en skipið fer með um 20.000 lítra á dag, að því er Inger André Utåker segir í viðtali við norska Fiskeribladet.

Utåker, sem er útgerðarstjóri norsku Hafrannsóknastofnunarinnar, segir að með því að stytta leiðangurinn geti stofnunin sparað sér um 3,5 milljónir norskra króna. Eða rétt tæplega 90 milljónir íslenskra.

Á móti kemur að ekki verður siglt alveg upp að ísröndinni nyrst, með þeim afleiðingum að eitthvað af upplýsingum gæti vantað inn í stofnmat og ráðgjöf ársins.

Utåker segist þó vonast til þess að olíuverðið hafi náð hámarkinu og sé tekið að fara niður á við aftur.

Þá daga sem ekki er siglt verður skipið í höfn í Hammerfest, þar sem landtenging við rafmagn er reyndar ekki síður dýr. Utåker gagnrýnir höfnina fyrir að rukka fullt verð fyrir rafmagnið, en hafnarstjórinn segir á móti að lagt hafi verið út í dýrar fjárfestingar og gjald innheimt í samræmi við það.

Utåker segir að inn í þessa ákvörðun spili reyndar einnig að draga þurfi úr losun koltvísýrings. Verið sé að kanna möguleikana á öðrum orkugjöfum fyrir skipið, en ennþá sé engin leið að hætta alveg að nota olíu. Auk þess sé ekki síður dýrt að gera breytingar á skipinu svo nýta megi aðra orkugjafa.