Unnsteinn Þráinsson frá Höfn í Hornafirði var í miðri aðgerð í Hornafjarðardýpi í morgun en gaf sér samt stund til að spjalla við tíðindamann Fiskifrétta samhliða því sem hann blóðgaði þann gula. Unnsteinn gerir út Sigga Bessa SF innan krókaaflamarkskerfisins og er skipstjóri. Auk hans eru tveir á bátnum.

„Við erum að draga akkúrat núna en segja má að þetta hafi gengið mjög vel í haust. Þetta er besta byrjun sem ég man eftir þótt kvótinn mætti vera meiri. Hann dugar okkur í fjóra mánuði. Við byrjum yfirleitt ekki fyrr en í október og klárum þetta einhvern tíma í janúar. Svo báturinn bara bundinn við bryggju og bíður eftir næstu vertíð,“ segir Unnsteinn.

Sést ekki humar

Hann gerir líka út strandveiðibátinn Huldu SF og segir að með þessu móti nái hann að hafa viðunandi afkomu af fiskveiðum. Framboð af kvóta er afar takmarkað og verð hækki stöðugt.

Unnsteinn Þráinsson þegar hann var á makrílveiðum á Sigga Bessa fyrir nokkrum árum.
Unnsteinn Þráinsson þegar hann var á makrílveiðum á Sigga Bessa fyrir nokkrum árum.

„Við erum með nokkrar lagnir í Hornafirði og þar eru auðvitað engar humarveiðar. Það er nóg af fiski hérna og hann sennilega búinn að éta upp restina af humrinum. Við sjáum alla vega ekki humar á línunni. Yfirleitt þegar við höfum lagt hérna ofan við humarbleiðurnar höfum við alltaf fengið nokkra á línuna. Nú kemur bara alls enginn,“ segir Unnsteinn.

Veður hefur hamlað veiðum í október og Siggi Bessa aðeins í sínum sjötta róðri á nýbyrjuðu fiskveiðiári. Lögnin hefur verið að gefa að meðaltali um tíu tonn, mest af þorski en líka ýmsu gramsi, eins og keilu og löngu. Þetta sé með því mesta sem þeir hafi séð í þessum veiðum.

„Við róum bara í góðu veðri og erum ekki að rembast í brælunum. Það hefur verið ágætt verð að fást fyrir fiskinn undanfarna daga og við seljum allt á markaði.“