Hagnaður fyrirtækja í fiskveiðum og vinnslu fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (verg hlutdeild fjármagns, EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs jókst á milli áranna 2020 og 2021, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands.

Hreinn hagnaður (EBT) fyrirtækja í fiskveiðum og vinnslu, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 22% árið 2021 samanborið við 20,1% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 56 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð tæplega 33 milljörðum króna. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð nam hagnaðurinn tæplega 69 milljörðum króna eða 27% af tekjum árið 2021 borið saman við 28 milljarða króna eða 11,5% af tekjum árið 2020.

Frá árinu 2020 hækkaði hlutfallið (án milliviðskipta) úr 31,9% í 34,8% og fiskveiðar lækkuðu úr 24,2% árið 2020 í 23,6% af tekjum ársins 2021 en fiskvinnslan hækkaði úr 16,4% í 18,1%.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegarins um 953 milljarðar króna í árslok 2021, heildarskuldir rúmir 520 milljarðar króna (hækkun um 4,7%) og eigið fé tæpir 434 milljarðar króna.