„Ef stofnar einstakra tegunda ná að verða mjög stórir miðað við landrými og fæðu sem er í boði getur orðið mikil barátta með tilheyrandi þjáningum og dauða. Mikill fjöldi dýra getur einnig leitt til hnignunar vistkerfisins sem þau lifa í sem svo kemur niður á tegundum sem í því búa,“ segir í grein eftir Guðna Þorvaldsson prófessor í Landbúnaðarháskólunum í Morgunblaðinu í dag sem nefnist Hugleiðing vegna hvalveiðibanns.
Þar segir að hæfileg grisjun dýrastofna sé þáttur í að viðhalda velferð þeirra og um leið umhverfisins sem þeir lifa í.
„Maðurinn er eina lífveran sem markvisst getur haft áhrif á stærð dýrastofna, t.d. með friðun eða hóflegum veiðum. Þetta höfum við reynt að gera hér á landi með góðum árangri. Á Íslandi er t.d. villtur hreindýrastofn sem við teljum skynsamlegt að veiða úr til að stofninn verði ekki of stór. Með þessu er reynt að tryggja að landið verði ekki fyrir of mikilli áníðslu og dýrin svelti ekki. Sömu lögmál gilda í hafinu. Á undanförnum árum hefur borið á vaxandi andstöðu við veiðar villtra dýra en þá er horft fram hjá þessu atriði. Hæfileg grisjun dýrastofna er þáttur í að viðhalda velferð þeirra og um leið umhverfisins sem þeir lifa í.
Það er sjálfsagt að stefna að því að lágmarka þjáningar villtra dýra þegar þau eru veidd en það er bara lítill hluti af heildarmyndinni um velferð og líðan villtra dýra.“