„Þetta er búið að ganga skrambi vel,“ segir Einar Dagbjartsson í Grindavík, spurður hvernig strandveiðarnar hafi gengið það sem af er. „Við erum grjótharðir á strandveiðum og þetta er sennilega einn besti mánuðurinn fyrir okkur. Við erum búnir að vera nálægt skammtinum svo til í öll skiptin. Oftast fengið skammtinn, en ég átti einn down-túr og hefði þá betur setið í landi. Það var bara haugabræla og ég las vitlaust í það.“
Hann gerir út bátinn Grindjána ásamt bræðrum sínum, Eiríki Óla og Jóni Gauta. Eiríkur er útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf. og Jón Gauti er útibússtjóri Olís í Grindavík, en sjálfur er Einar flugstjóri hjá Icelandair.
„Ég er náttúrlega flugstjóri en get sagt þegar ég hætti í því að ég sé skipstjóri,“ segir Einar. „Nú er ég bara í sumarfríi, tek alltaf sumarfrí á þessum tíma af því það er svo gaman að vera trillukarl.“
Ekki indjáni
Grindjáni er 8,6 metra langur bátur, þrjátíu ára gamall en þeir bræður hafa átt hann í sameiningu í rúmlega áratug. Nafnið á bátnum er bara flipp sem vísar til Grindavíkur, segir hann: „Þetta er ekki indjáni, þetta er Grindjáni. Við vorum búnir að eiga bát sem við keyptum frá Grímseyingum í 20 ár, en svo eftir að strandveiðikerfið byrjaði þá keyptum við bát sem Jón Gauti bróðir átti. Svo fyrir þremur eða fjórum árum keyptum við okkur einhver 6 eða 7 tonn af þorski og fjögur af ufsa, og getum þá verið að braska í þessu fyrir utan strandveiðitímabilið. Við kláruðum okkar kvóta núna í apríl og fórum meira að segja á leigukvótann.“
Klikkaði í fyrra
„Strandveiðin klikkaði algerlega hjá okkur í fyrra. Það kom einhver þörungablómi í sjóinn, tregaðist mjög, og haugabræla. Svo var aldrei hægt að róa í vetur og við vorum nú orðnir helvíti blankir, en þessi maí er bara einn sá besti frá því þetta byrjaði fyrir okkur. Þannig að við erum orðnir kátir aftur hvað það varðar. Við erum alveg komnir fyrir vind. Við vorum með yfirdráttinn í botni og byrjaðir að lána fyrirtækinu. Veðrið gott og svo er verðið svo gott líka. Kaupið er mannréttindabrot, en þetta er bara svo ofboðslega skemmtilegt.“
Grímseyjargeðveikin
„Þetta er Grímseyjargeðveikin,“ segir hann. „Afi minn og amma bjuggu í Grímsey og afi var trillukarl. Hann var útvegsbóndi, var með trillu og eina belju og nokkrar rollur. Og reyndar föðurafi minn líka í rauninni, hann var með rollur og stærri bát hérna í Grindavík.“
Faðir þeirra bræðra var Dagbjartur Einarsson, útgerðarmaður og skipstjóri í Grindavík, forstjóri útgerðarfélagsins Fiskanes hf. sem síðar sameinaðist Þorbirni hf.
„Við erum nú að eldast,“ segir Einar. „Við verðum orðnir hundrað prósent í þessu eftir þrjú ár, og stórútgerðarmenn eftir sex ár. Það er stefnan að verða kvótakóngur eins og pabbi. Þetta er svo ofboðslega vinsæll titill, kvótakóngur, meðal alþýðu manna á Íslandi,“ segir Einar og grínast með að þeir bræður ætli að láta prenta handa sér boli þar sem á stendur annað hvort Sægreifi eða Kvótakóngur.
„Við ætlum svo að rölta um miðbæ Reykjavíkur og ræða kvótamálin. Fólk er alltaf að tjá sig um þetta og veit ekkert hvað það er að tala um.“