Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra stefnir að því að frumvarp um kvótasetningu grásleppu verði lagt fram nú á vorþingi, lögin taki gildi 1. september og komi því til framkvæmda á grásleppuvertíðinni 2024.

Frumvarpsdrögin hafa verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda og frestur til þess að senda inn umsögn rennur út mánudaginn 20. mars.

Megintilgangur frumvarpsins er sagður vera að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Vísað er til þess að stjórn grásleppuveiða hafi á undanförnum árum sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar.

Nýliðar fái 5,3%

Hugmyndin er að við úthlutun aflahlutdeildar verði miðað við veiðireynslu á árunum 2014-2019, og verði reynslan metin út frá þremur bestu veiðitímabilum hvers báts af þessum sex. Þarna er vikið frá þeirri meginreglu laga að miða eigi við veiðireynslu þriggja síðustu veiðitímabila þegar aflahlutdeild er úthlutað.

Jafnframt er lagt til að draga megi 5,3% frá heildarafla grásleppu og því aflamarki verði úthlutað til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti. Nýliðar fái þá aflamarki úthlutað til eins árs í senn, en hafi möguleika á að fá úthlutun nokkur ár í röð. Að þeim tíma liðnum hafi nýliðum tekist að kaupa sér aflahlutdeild til grásleppuveiða.

Hámarkið verði 2%

Þá er gert ráð fyrir að aflahlutdeild í grásleppu megi að hámarki nema 2% og ekki verði heimilt að framselja kvótann eða flytja á milli svæða. Veiðisvæði grásleppu verði þau sömu og nú er mælt fyrir um í reglugerð, en lagt til að þau verði lögfest.

Landssamband Smábátaeigenda (LS) lýsir andstöðu við þessi áform og minnir á að á aðalfundum þess árin 2019 og 2020 hafi öllum hugmyndum um kvótasetningu grásleppu verið hafnað.

„Kvótasetning grásleppu er flókin, ekki síst með tilliti til jafnræðis. Því er mikilvægt að gæta mikillar varúðar við framkvæmd og lagasetningu þar um,“ segir á vef LS. „Hingað til hefur kvótasetning stuðlað að sameiningu útgerða og fækkun aðila sem stunda viðkomandi veiðar. Á því verður engin undantekning með samþykkt þessa frumvarps.“