Hópi vísindamanna hefur tekist að greina svonefnda flúrljómun hrognkelsa, sem birtist þegar útfjólubláu örvunarljósi er beint að fisknum. Í þessu ljósi reyndist litur hrognkelsa vera grænn. Að minnsta kosti reyndust allt ungviði hrognkelsa gefa frá sér grænan ljóma þegar þessari aðferð er beitt. Vísindamennirnir segja að frekari rannsókna sé þó þörf til að komast að því hvort þessi litur haldi sér þegar hrognkelsin þroskast og eldast.

Stutt grein um þessar rannsóknir hefur verið birt í tímaritinu Journal of Fish Biology. Aðalhöfundur er Thomas Juhasz-Dora, sem starfar á hafrannsóknastöð í Bantry á Írlandi, Bantry Marine Research Station.

Sagt er frá þessum rannsóknum í New York Times, og nefnt að svipaðar athuganir hafi verið gerðar á ýmsum öðrum dýrum. Þar er haft eftir Juhasz-Dora að forvitni hans hafi vaknað þegar hann horfði á útstæð augu grásleppunnar á rannsóknarstofu sinni. Hann hafi séð flúrljómun af öðrum fiskum og datt í hug að kanna hvort grásleppan hafi einnig þennan eiginleika.

Juhasz-Dora telur líklegt að önnur hrognkelsi geti séð þessa útgeislun, þótt hún sé ósýnileg mannfólki. Vitað er að í hornhimnu augna sumra dýrategunda séu ljóssíur sem gera þeim kleift að sjá flúrljómun af öðrum lífverum án þess að notast við útfjólublátt ljós. Mögulega noti hrognkelsin þennan hæfileika til að vera sýnileg öðrum grásleppum og jafnvel gefa þeim einhver merki, án þess að afræningjar sjái.

Í New York Times segir raunar einnig frá því að grásleppan sé orðin nokkuð vinsæl á Tik Tok. Þar birtast reglulega myndir og myndbönd af hrognkelsum frá vísindafólki og sjómönnum, sem gert hafa mikla lukku.

„Ég átti ekki von á því að þetta yrði svona vinsælt,“ segir Nataniel Spada, aðstoðarmaður á rannsóknarstofnun í Massachusetts, „en ég hefði átt að sjá það fyrir vegna þess að þetta er býsna svalur fiskur.“