Hinn árlegi alþjóðlegi fundur hagsmunaaðila um grásleppuveiðar og hrognavinnslu (LUROMA) var haldinn hinn 3. febrúar sl. að þessu sinni í Lissabon í Portúgal. Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda (LS), skipulagði og stýrði fundinum. LS hefur frá árinu 1989 séð um það hlutverk. Arthur segir að léttara hafi verið yfir fundarmönnum en amk á COVID tímabilinu.

„Mér leið nokkuð vel eftir þennan fund. Ég held að hlutirnir séu ekki á neinu vandræðastigi, þetta virðist allt róla í þokkalegum jafnvægi“ segir hann. Hins vegar sé erfitt að draga einhverja niðurstöðu af svona fundi.

Hann tekur fram að þessi vettvangur sé fyrst og fremst til að skiptast á upplýsingum, en sumt megi ekki ræða, t.d. verðhugmyndir fyrir komandi vertíð. Til hans mættu 14 aðilar frá sex löndum, Íslandi, Noregi, Nýfundnalandi, Svíþjóð, Grænlandi og Danmörku.

Nánast engar birgðir í landinu

„Ef það er jafnvægi í birgðum og sala á kavíarnum gengur vel og lítlar birgðir í útflutningslöndunum eins og Íslandi, þá ímyndar maður sér að verðið hljóti að síga upp á við. Eftir því sem ég best veit er nánast ekkert til af tunnum í landinu. Það kom betur í ljós en áður að Íslendingar og Grænlendingar sjá nánast alfarið um þennan markað.“

Mörg ár eru liðin frá því grásleppuveiðin hrundi á Nýfundnalandi. Á því hafa aldrei fundist neinar skýringar.

„Það er útilokað að það sé vegna veiða. Það gerðist eitthvað í náttúrufarinu. Veiðin þar á síðasta ári var ekki nema 300 tunnur hjá þjóð sem veiddi þegar best lét 27.000 tunnur. Aðeins nokkrir tugir báta stunduðu veiðarnar í fyrra, en þegar mest var náði bátafjöldinn hátt í 3000. Meðalveiðin síðastliðin 10 ár er um það bil 250 tunnur.“

Sömuleiðis hafi veiðin hrunið hjá Norðmönnum.

„Þeir voru inni þangað til á allra síðustu árum. Það helgast af því að verð á öðrum tegundum eins og þorski hefur verið mjög gott og menn ekki nennt að sækja í fisk sem ekki er borgað mikið fyrir.“

Kína enn lokað

Norðmenn veiddu rúmar 300 tunnur í fyrra og meðalveiði Norðmanna síðastliðin 10 ár er innan við 1000 tunnur. Arthur tekur fram að Noregur sé eina landið sem stýrir grásleppuveiðunum með kvótakerfi.

Á tímabili opnaðist markaður í Kína fyrir grásleppuhvelju, en covid-faraldurinn lokaði þeim viðskiptum. Arthur sagðist ekki sjá að það sé að fara að breytast á næstunni.

„Það virðist torvelt að koma því af stað aftur. Það er ömurlegt því þetta var mikil búbót fyrir karlana að fá eitthvað fyrir búkinn líka.“

Heildarveiðin í heiminum árið 2022 var uþb 20 þúsund tunnur sem er nálægt því sem heimsmarkaðurinn fyrir grásleppukavíar þolir. Þess má geta að á árinu 1992 var áætlað að heimsmarkaðurinn væri uþb 42 þúsund tunnur.

Kvótasetning grásleppuveiða

Hugmyndir hafa verið um að kvótasetja grásleppuveiðar. Matvælaráðherra kynnti fyrir skömmu í Samráðsgátt stjórnvalda áform um slíkt og margir þeirra smábátaeigenda sem stundað hafa grásleppuveiðar eru fylgjandi kvótasetningu, en á aðalfundum LS hefur andstaða við hana ávallt fengið meirihluta í atkvæðagreiðslum.

„Það er misjafnt hljóðið í grásleppuveiðimönnum,“ segir Arthur um afstöðu þeirra til hugsanlegrar kvótasetningar grásleppuveiða. „Ég er með félagsmenn sem myndu fá ágætis aflareynslu út úr kvótasetningu en eru algerlega andvígir henni. Svo eru aðrir sem jafnvel hafa kosið að yfirgefa félagið af því að þeir eru í fýlu vegna þess að það samþykkir ekki það sem þeir vilja og heimta kvótann sinn.“

„Mér er skylt að fara að samþykktum aðalfunda Landssambandsins. Þeir hafa hingað til greitt atkvæði á móti kvótasetningu. Landssambandið er samansett af sextán aðildarfélögum og einungis tvö þeirra samþykktu kvótasetningu á síðasta ári.“

Sjálfur segist hann vera „í prinsippi á móti kvótasetningu á smábátaveiðar. Þær hafi bara leitt til eins, að heilu flotunum er útrýmt og það verður ekkert öðru vísi í tilfelli grásleppunnar. Það verður nákvæmlega „copy paste“ af öðrum kvótasetningum. Það er nóg að rifja upp árið 1990 þegar rúmlega þúsund litlir bátar fóru inn í aflamarkskerfið. Sá floti er nánast horfinn. Þá liggur í augum uppi að kvótasetning grásleppunnar mun auka þrýstinginn á strandveiðikerfið.“

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda
Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Úr umsögnum í Samráðsgátt stjórnvalda:

Markaður fyrir grásleppu er fremur lítill á heimsvísu og þess vegna hefur verið talið æskilegt að stýra að nokkru framboði á afurðum hennar. Sú sóknarstýring sem var við líði fram að kvótasetningu á heildarafla fyrir um áratug reyndist í meginatriðum vel og tryggði bæði eðlilegt samspil veiðistofns og veiða sem og hagkvæmni veiðanna enda stýring þeirra að mestu látin taka mið af aðstæðum á heimsmarkaði þessarar vöru. Innan Drangeyjar eru skiptar skoðanir á kvótasetningu á grásleppu en engar ályktanir um það verið samþykktar á aðalfundum félagsins á síðustu árum. Vitað er að meirhluti þeirra sjómanna sem stundað hafa grásleppuveiðar á Skagafirði um alllangt skeið eru nú hlynntir kvótasetningu enda liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum það verði gert og hvernig hún verði útfærð. Slíku er að áliti þeirra ekki til að dreifa í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi.

Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar

Undirritaður hefur stundað grásleppuveiðar óslitið frá árinu 1996 hjá eigin útgerð.

Ég er algerlega mótfallinn kvótsetningu á grásleppu.

Það eru engar forsendur fyrir því að þurfa að kvótasetja þennan stofn því Hafró eða einhverjir aðrir hafa ekki neina hugmynd um stofnstærð Hrognkelsa og fyrir utan það þá hefur hún ekki verið ofveidd á undanförnum árum.

Veiðimagn eða sóknardagar hafa verið ákveðnir með tilliti til markaðsaðstæðna þrátt fyrir að Hafró hafi gefið út hámarksafla á yfirstandandi vertíð.

Auðvitað mætti laga til og bæta það kerfi sem unnið er í, en það sem er verið að leggja fram með þessu frumvarpi er í raun verra en það sem fyrir er.

Halldór Ármannsson, trillukarl

Ljóst var fyrir áratugum síðan að íslensk stjórnvöld hafa valið að stýra veiðum úr nytjastofnum við Ísland með aflamarki. Það hefur gefist vel og miklu betur en bjartsýnustu raddir töldu í upphafi. Hver tegundin á fætur annarri, hefur ratað inn í þá veiðistjórnun. Byggt á þeirri góðu reynslu sem aflamarksstýringin hefur leitt í ljós.

Mikill meirihluti (tæp 80%) allra grásleppuútgerða hringinn í kring um landið; að vinnslunum meðtöldum, hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum undanfarin ár til þess að fá grásleppuna undir aflamarksstýringu; þannig að hún lúti sömu veiðistjórnun og aðrir nytjastofnar.

Stefán Guðmundsson, fh. grásleppuútgerða og vinnslu á Húsavík

Áhyggjur af samþjöppun eru óþarfar, þó ljóst sé að samþjöppunin verður einhver. Það má benda á að allt að 60 útgerðir reka 2-4 báta sem stunda veiðarnar samhliða eða í beit, og því augljóst hagræði fyrir þá aðila að reka einungis einn bát með aflamarki, nái þessi áform í gegn.

Þátttaka í grásleppuveiðum hefur farið minnkandi síðustu ár og frá því að strandveiðar hófust hefur fækkað þeim strandveiðibátum sem einnig stunda grásleppuveiðar.

Ég hvet ráðherra til að vanda vel til verka þegar kemur að frekari útfærslu á þessu frumvarpi. Þar hef ég helst í huga veiðskildu, viðmiðunarár og útfærslu á svæðaskiptingu. Hvet ráðherra til samráðs við þá sem þessar veiðar stunda við þá vinnu og lýsi yfir áhuga á að vera með í því samráði, kjósi ráðherra að stofna til samráðshóps um það verkefni.

Axel Helgason, fyrrverandi formaður LS