Smíði á nýju rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar er á áætlun hjá Astilleros Armón skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Áætluð afhending skipsins er í október á næsta ári. Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, var staddur í Vigo ásamt fleirum frá stofnuninni, m.a. í þeim erindagjörðum að hafa hönd í bagga um val á innréttingum.

„Staðan er nákvæmlega sú núna að við erum hér syðra að velja áklæði og innréttingar, en ég er kannski ekki besti maðurinn í það enda er hérna með mér innanhússhönnuður. Verkið gengur að öðru leyti eftir þeirri áætlun sem lagt var upp með. Skrokkurinn er kominn í fulla lengd og allir íhlutir og vélar eru að komast á sinn stað,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, kynntu sér framvinduna í smíði skipsins.
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, kynntu sér framvinduna í smíði skipsins.

Tafir á afhendingu véla

Reyndar hafa orðið tafir á afhendingu vélanna sem eru tvær. Önnur er komin en von var á þeirri seinni núna í vikunni. Til stóð að þær yrðu afhentar í júlí en tafirnar eiga ekki að hafa áhrif á afhendingartíma skipsins. Skipið verður með tvinnaflrás. Dísilvélarnar munu koma frá belgíska framleiðandanum ABC en framdrifsrafmótor frá Indar. Búnaður frá að minnsta kosti þremur íslenskum fyrirtækjum verður í skipinu, þar á meðal spilbúnaður frá Naust Marine, hluti rafeindabúnaðar frá Marport og vigtarkerfi á millidekki frá Marel.

Vélbúnaður að hluta kominn í skipið.
Vélbúnaður að hluta kominn í skipið.

Nýja rannsóknaskipið leysir Bjarna Sæmundsson af hólmi og mun gerbreyta og bæta aðstöðu til rannsókna. Bjarni Sæmundsson var smíðaður árið 1970 og verður því kominn á 55. aldursár þegar nýja skipið tekur við. Tilkynnt var fyrst um smíði nýja rannsóknaskipsins á sérstökum hátíðarfundi í tilefni af aldaramæli fullveldis Íslands, sem haldinn var á Þingvöllum 18. júlí 2018. Fjárveiting til smíðinnar nemur 36 milljónum evra, sem á núvirði eru rúmir 5,2 milljarðra króna.

Dregið úr losun

Það var Skipasýn ehf. sem forhannaði skipið og rammaði það inn í þá fjárveitingu sem ætluð er til smíðinnar. Það verður 70 metrar á lengd og við hönnun þess var horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Til lýsingar verður notuð LED tækni, spilbúnaðurinn verður rafdrifinn, til upphitunar verður notuð afgangsorka frá kælivatni aðalvéla og vistarverum verður skipt upp þannig að einungis verði loftræstar þær sem eru í notkun hverju sinni. Skipið verður tengt við landrafmagn þegar það er í höfn og gert er ráð fyrir að settir verði upp varmaskiptar í heimahöfn í Hafnarfirði þannig að skipið verði hitað upp með vatni frá hitaveitu í landlegum.

Tölvugerð mynd af rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar.
Tölvugerð mynd af rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar.

Segja má að orðið sé aðkallandi fyrir Hafrannsóknastofnun að fá nýtt rannsóknaskip í stað Bjarna Sæmundssonar sem er kominn til ára sinna og er auk þess tímabundið úr rekstri eftir að hann strandaði í Tálknafirði 21. september sl. Þorsteinn segir skemmdirnar þó ekki miklar og viðgerð ljúki vonandi í þessari viku.

Gangurinn í verkinu og áætluð verklok hinna ýmsu þátta.
Gangurinn í verkinu og áætluð verklok hinna ýmsu þátta.