Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, kom til Neskaupstaðar í morgun með rúmlega 850 tonn af makríl, sem er fyrsti farmur skipsins á nýhafinni makrílvertíð. Aflinn var veiddur í Síldarsmugunni svokölluðu.
Þetta kemur fram á vef Samherja. Þar segir að undanfarin ár hafi uppsjávarskip Samherja og Síldarvinnslunnar haft með sér samstarf um veiðar, sem skilað hafi góðum árangri. Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson hafi verið að veiðum í Síldarsmugunni. Haft er efir Birki Hreinssyni, skipstjóra á Vilhelm Þorsteinssyni, að um sé að ræða ágætis hráefni.
Fjögur hundruð sjómílna sigling
„Makríllinn er viðkvæmastur á þessum árstíma og fitnar eftir því sem líður á vertíðina. Stærðin er um og yfir 400 grömm, sem hentar ágætlega til manneldis. Siglingin úr Síldarsmugunni tók 34 klukkustundir, enda siglingaleiðin um 400 sjómílur og þá skiptir miklu máli að kælibúnaðurinn sé góður,“ segir Birkir á samherji.is.
Að sögn Birkis sýnir fiskileitarbúnaðurinn mjög takmarkaðar upplýsingar um hvar makríl sé að finna í veiðanlegu magni.
Erfitt að sjá makrílinn í tækjunum
„Makríllinn er á grunnu vatni, sem við köllum yfirborðsveiði. Við erum að tala um frá yfirborði niður á um eitt hundrað metra, sem þýðir að erfitt er að sjá fiskinn í tækjunum. Helst er þá að finna hann með trollinu, sem var raunin í þessum túr,“ segir Birkir. Að löndun lokinni verði væntanlega farið á makrílveiðar í íslenskri lögsögu suð-austur af landinu.
„Já, já, það var góð tilfinning að sigla inn Norðfjörðinn í morgun í blíðskaparveðri. Þegar vertíð er að hefjast er alltaf viss spenna. Ég er þokkalega bjartsýnn á framhaldið, áhöfnin er þaulvön og skipið er vel útbúið á allan hátt,” segir Birkir á samherji.is.