Beitir NK kom til Neskaupstaðar á þriðjudagskvöld með 2.800 tonn af kolmunna úr færeyskri lögsögu.
Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Tómas Kárason skipstjóra.
„Það gekk vel að veiða þegar það var hægt. Veðrið var afar óhagstætt. Við byrjuðum túrinn á að liggja í vari í Færeyjum í tvo daga og áður en siglt var heim lágum við í tæpan sólarhring í Borðeyjarvík austan Klakksvíkur í vari. Þá stoppuðum við einu sinni á miðunum í 12 tíma og biðum af okkur versta veðurhaminn. Þetta var semsagt helvítis brælutíð en það fiskaðist hinsvegar vel þegar hægt var að veiða. Við fengum aflann í sex holum og holin gáfu frá 290 tonnum og upp í 600 tonn. Venjulega var dregið í 10 – 12 tíma. Veiðisvæðið var um 70 mílur austur af Færeyjum,” segir Tómas á svn.is.
Þá segir að Beitir hafi haldið til síldveiða vestur af landinu strax að löndun lokinni og að síldartúrnum loknum megi gera ráð fyrir að aftur verði haldið á kolmunnamiðin. „Tómas skipstjóri hélt hins vegar áleiðis til Danmerkur strax og í land var komið en hópur skipstjórnarmanna fór til Hirtshals þar sem tilraunir eru gerðar með veiðarfæri í sérstökum tilraunatanki. Danmerkurferðin er skipulögð af Hampiðjunni,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.