Borgarplast er eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem tekur þátt í Seafood Expo í Barcelona. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á fiskikörum og þegar blaðamaður leit við á bás fyrirtækisins var nýlokið við að gera samning við hollenskt fyrirtæki um sölu á 300 körum.

Kristján Benediktsson sölustjóri segir mikla samkeppni á þessum markaði út um allan heim en Borgarplast búi að góðu orðspori fyrir sína framleiðslu og því sem hann vill meina að séu mestu gæðin.

„Við fáum til okkar menn sem segjast óska þess að geta komið til okkar en okkar vara er dýrari en samkeppnisaðilanna. Gæðin kosta bara sitt en á móti svörum við þeim því að með því að koma í viðskipti við okkur þurfi þeir ekki stöðugt að endurnýja körin,“ segir Kristján.

Borgarplast framleiðir kör fyrir Umbúðamiðlun og segir Kristján að meðal endingartími þeirra sé 10-15 ár. Þau kör eru stanslaust í notkun nánast alla daga ársins. Á sýningarbásnum má sjá myndband frá prófunum á styrkleika karanna. Lyftara er ekið á þau og þau látin falla til jarðar full af vatni. Þessa meðferð þola körin vel af myndunum að dæma.

Kör til Úganda og Seychellseyja

„Ég var á fundi áðan með fulltrúa fyrirtækis sem sér um útvegun kara fyrir önnur fyrirtæki. Þessi fyrirtæki setja fiskúrgang í körin og það fyrirtæki sem útvegar körin sækir svo úrganginn án endurgjalds og vinnur afurðir úr honum.“

Borgarplast er líka í viðskiptasambandi við evrópskt fiskeldisfyrirtæki sem slátrar fisk og flytur hann í körum frá Borgarplasti heilan í vinnslu annars staðar. Einnig er fjöldi skipa á meginlandinu með kör frá fyrirtækinu.

„Frá því fyrsta kerin kom á markað hjá okkur 1981 hefur margt breyst. Það var ekki einangrað og fyrstu körin með einangrun komu 1983. Núna eru skip hönnuð með tilliti til fjölda kerja. Sumir af stærri togurunum eru með allt að 600 kör í lest.“

Borgarplast hefur selt fiskiker til Tyrklands frá árinu 1991 og fyrirtækið hefur selt ker til landa eins og Úganda, Maldíveyja, Seychelleseyja og í fyrra fór stór pöntun til Saudi-Arabíu.