Fyrirtækið hét Stofnfiskur fram til ársins 2014 þegar það var keypt af Benchmark Holdings. Um síðustu áramót breyttist nafn þess úr Stofnfiski í Benchmark Genetics Iceland sem var liður í þeirri stefnumörkum móðurfélagsins að dótturfélög komi fram undir sameiginlegu vörumerki. Önnur félög eru starfandi undir vörumerkinu í Noregi og Chile auk félaganna Spring Genetics og Benchmark Genetics Shrimp. Það er með eldisstöðvar í Noregi, Íslandi, Chile, Bandaríkjunum, Brasilíu og Kólumbíu.

Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland. Aðsend mynd
Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland. Aðsend mynd

Benchmark Genetics Iceland rekur þrjár hrognastöðvar á Íslandi, þ.e.a.s. í Vogavík við Vatnsleysuströnd, Kalmanstjörn á Garðskaga og í Kollafirði.

Hrogn fyrir 400.000 tonn

„Okkar viðskiptaár er frá 1. október til 30. september. Við ráðgerum á þessu tímabili að selja á bilinu 130 til 140 milljónir laxahrogna. Til þess að setja það í eitthvert samhengi eru framleidd um 2,8 kg af fiski úr hverju hrogni. Hrognin sem við framleiðum duga því til þess að framleiða um 400.000 tonn af laxi,“ segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri.

Hrognin eru seld til 29 landa víðs vegar um heiminn, þar á meðal til Noregs, Færeyja, Skotlands, Íslands og Chile, svo fáein lönd séu nefnd. Aukning hefur orðið í hrognaframleiðslu Benchmark Genetics Iceland á hverju einasta ári frá því það gekk inn í Benchmark móðurfélagið árið 2014. Frá þeim tíma hefur veltan þrefaldast.

Hrognin frjóvguð í hrognahúsi. Aðsend mynd
Hrognin frjóvguð í hrognahúsi. Aðsend mynd

„Eftirspurnin eykst stöðugt og hún byggist ekki síst á heilbrigði íslensku laxahrognanna. Við höfum líka þá sérstöðu að við framleiðum hrogn allt árið og getum þar af leiðandi boðið hrogn allt árið. Flestar laxeldisþjóðir eru farnar að haga seiðaeldi sínu í svonefndum endurnýtingarkerfum þar sem vatnið og varminn er endurnýjaður sem margfaldar framleiðslugetuna á seiðum. Mörg þessara laxeldisfyrirtækja eru farin að kaupa hrogn þrisvar til fjórum sinnum á ári með jöfnu millibili og eftirspurnin eykst mikið.“

Gengdarlaus eftirpurnaraukning

Benchmark Genetics Iceland þarf því að stækka og auka framleiðslugetuna. Fyrirtækið er með umsóknir um stækkun á sínum framleiðsluleyfum. Í Vogavík var leyfi fyrir framleiðslu á 200 tonnum af hrognum á ári en nú er leyfi fyrir framleiðslu á 550 tonnum. Þá er unnið að stækkun leyfisins í Kalmanstjörn úr 200 tonnum í 600 tonn sem er nú í ferli hjá Skipulagsstofnun. Þá verður nýtt 2.300 fermetra hrognahús í Vogavík opnað formlega í haust. Tæplega 90 manns vinna hjá fyrirtækinu núna og ljóst er að fjölga þarf starfsmönnum enn frekar.

Úr hverju hrogni verða til 2,8 kíló af fiski. Aðsend mynd
Úr hverju hrogni verða til 2,8 kíló af fiski. Aðsend mynd

Velta Benchmark Genetics Iceland er um það bil 3,5 til 4 milljarðar króna á ári og stefnir í enn frekari veltuaukningu.

„Það er svo gengdarlaus eftirspurn eftir laxi og það er ekkert lát á henni. Við getum ekki aukið veiðar á villtum fiski og um leið fjölgar mannkyninu. Lax er vinsæl vara út um allan heim og eftirspurnin eykst stöðugt. Þá þurfum við einfaldlega að gæta þess að eiga nóg af hrognum,“ segir Jónas.

Benchmark Holdings er á hlutabréfamarkaði í London.