Félagið Ganti ehf. í Grindavík, eitt þriggja félaga sem urðu til upp úr Þorbirni hf., hefur keypt ísfisktogarann Huldu Björnsdóttur GK og gerir hann út til bolfiskveiða. Hrannar Jón Emilsson, framkvæmdastjóri Ganta, segir að vel hafi tekist að slípa skipið til og fá út úr því fulla virkni en það kom nýtt til landsins frá Gijón á Spáni um miðjan október í fyrra. Kaupverð skipsins var 28 milljónir evra, rúmir 4 milljarðar samkvæmt genginu í dag, sem er sama upphæð og Ganti greiðir fyrir það.
Hátæknivæddasti ísfisktogari landsins
Hulda Björnsdóttir GK er 58 metra löng og 13,60 m á breidd. Hún er einn hátæknivæddasti ísfisktogari landsins. Skrúfan er fimm metrar í þvermál og vélin er minni og hæggengari en gengur og gerist. Samkvæmt reynslu Vinnnslustöðvarinnar og Hraðfrystihússins – Gunnvarar, af Breka VE og Páli Pálssyni ÍS, sem eru svipuð skip, sparast 40% af olíu á hvert veitt kíló. Skipið var hannað af Skipasýn í samstarfi við kaupendur skipsins. Það er með tvö troll og sjálfvirkt lestarkerfi. Hrannar Jón segir að útgerð skipsins hafi gengið ágætlega en í raun sé enn verið að fást við „fíniseringar og fínstillingar“ í þessum nýjasta ísfisktogara landsins.
Túrarnir fara stækkandi
„Heilt yfir hefur þetta gengið vel og við erum komnir á fínan stað og farnir að geta gert út án frátafa,“ segir Hrannar Jón. Það var Valur Pétursson, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem sigldi skipinu frá Spáni til Íslands á síðasta ári en nú hafa tveir skipstjórar tekið við Huldu Björnsdóttur GK, þeir Birgir Sigurbjörnsson og Frosti Halldórsson. Túrarnir taka að meðaltali sjö daga og landað er á þriðjudögum. Hefur skipið undantekningarlaust landað í Grindavík að undanskildu einu skipti þegar landað var í Hafnarfirði þegar farið var í viðhaldsstopp þar. Afli í hverjum túr hefur verið á bilinu 40 til 60 tonn og hafa túrarnir verið stækkandi. Þannig skiluðu tveir síðustu túrar 70 tonnum hvor, 483 körum í fyrri túrnum og 509 í þeim seinni. Fiskurinn er blóðgaður og slægður um borð og ísaður í kör. Aflinn hefur verið keyptur á markaði og ýmist farið í vinnslu hjá öðrum eða verið fluttur út. Allur afli úr tveimur af þremur síðustu löndunum fór þannig til vinnslu hjá Vísi í Grindavík.
„Hraðfrystihús Hellissands hefur líka keypt af okkur og hjálpaði okkur í raun að fínstilla af gæðastandardinn í fyrstu túrunum. Það hitti líka vel á því þá vantaði hráefni á þessum tíma.“
Kaupin dálítið stór biti
Saga Þorbjarnar sem útgerðarfélags heyrir brátt sögunni til en fyrirtækin þrjú sem stofnuð voru við uppskiptin eru Ganti ehf., Blika Seafood og Útgerðarfélag Grindavíkur ehf. Eigendur þeirra eru börn Eiríks, Gunnars og Gerðar Tómasarbarna, en Tómas Þorvaldsson stofnaði ásamt þremur félögum sínum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þorbjörn hf. árið 1953. Framkvæmdastjóri Bliku Seafood er Óskar Gunnarsson, Gunnlaugur Eiríksson er framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Grindavíkur og Hrannar Jón, sem fyrr segir, framkvæmdastjóri Ganta, en það félag er í eigu Gerðar Tómasdóttur. Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK fór inn í Bliku Seafood, Tómas Þorvaldsson GK inn í Útgerðarfélag Grindavíkur. Þorbjörn hf. gerði einnig út línuskipið Sturlu GK sem upphaflega fór inn í Ganta ehf.

„Við tókum eiginlega bara slaginn og ákváðum að kaupa Huldu Björnsdóttur GK sem var til sölu. Í framhaldinu seldum við Sturlu GK til G. Run á Grundarfirði í byrjun árs,“ segir Hrannar Jón.
Hráefni í hæsta gæðaflokki - alltaf
Hann segir að það hafi verið stór biti að kaupa Huldu Björnsdóttur GK og margar vökunætur farið í að sjá út úr því öllu saman. „En þetta var rétt ákvörðun. Við getum gert ákveðna hluti sem við gátum ekki gert á Sturlu þótt hann hafi farið mjög vel með þær heimildir sem voru á honum. Hulda er afkastameiri og hún var hönnuð og smíðuð til að skila í land hráefni í hæsta gæðaflokki. Við náum meiri stöðugleika hvað það varðar. Við náðum af og til túrum í þessum hæstu gæðum á Sturlu en Hulda skilar þeim í hverjum einasta túr. Við erum kannski ekki að ná betri verðum fyrir vikið en við fengum á Sturlu en við náðum alltaf góðum verðum,“ segir Hrannar Jón.
Skipið kostaði í smíðum hjá Armón skipasmíðastöðinni í Gijón 28 milljónir evra, sem miðað við núverandi gengi er rúmir 4 milljarðar ÍSK. Ganti keypti skipið á því verði. Ágætlega gekk að fjármagna kaupin þrátt fyrir óhagstæð ytri skil yrði, þ.e.a.s. stöðu á lánsfjármörkuðum og vaxtastigi.
„Málið var þannig vaxið að Þorbjörn var ekki mjög skuldsett félag og við fluttum lítið af skuldum með okkur inn í nýtt félag. Hulda Björnsdóttir GK sjálf stendur auk þess að verulegu leyti undir fjárfestingunni. Menn horfa líka á það þegar skoðað er hvaða veð eru að baki lánum.“
Engin plön um að endurreisa vinnsluna
Vinnslu á fiski á vegum Þorbjarnar og félaganna sem stofnuð voru upp úr Þorbirni er lokið, nema hvað frystitogararnir tveir eru auðvitað með sínar vinnslur um borð. Landvinnslu er altént lokið og segir Hrannar Jón engin plön um að endurvekja hana að svo stöddu. Þorbjörn hf. rak áður fullbúið fiskvinnsluhús í Grindavík þar sem starfaði fjöldi manns. Tæplega 60 manns var sagt upp hjá landvinnslunni síðasta sumar vegna ástandsins sem myndaðist við jarðhræringarnar. Þá hafði vinnslan nýlega verið byggð upp og nýbúið að ræsa nýtt frystikerfi. Við uppskiptin á Þorbirni kom gamla frystihúsið í hlut Ganta. Lítið er af vinnslustækjum í húsinu en þar eru frystitæki og lausfrystar.