Uppsetning á nýjum vinnslubúnaði í togbátinn Frosta ÞH 229 hjá Slippnum Akureyri lauk í byrjun árs. Á veiðum undanfarnar vikur og mánuði hefur nýr búnaður reynst vel og gæðafiskur skilað sér til vinnslu.

Slippurinn Akureyri annaðist hönnun og smíði vinnslubúnaðarins auk uppsetningar um borð og hófst vinnan um borð í lok september í fyrra. Hönnun hófst strax í sumarlok.

„Skipið kom til okkar seint í septembermánuði eða um einum og hálfum mánuði eftir að samningur um nýtt vinnsluþilfar var undirritaður. Í ágúst var vinnsludekkið hannað í góðu samstarfi við útgerðina en Gilli vélstjóri [Sigurgeir Harðarson] var tíður gestur á hönnunardeild Slippsins og tók jafnan með sér skipverja sem lögðu sitt á vogarskálarnar. Að því búnu voru nýjustu drög jafnan send Steina skipstjóra [Þorsteinn Harðarson] sem vó þau og mat í samráði við aðra í áhöfninni. Það er ómetanlegt að vinna með aðilum sem hafa starfað í greininni svona lengi og sérstaklega gaman að sjá hversu umhugað bræðrunum og áhöfninni allri er um aflagæði og aflameðferð,“ segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri hjá Slippnum.

Mikið verk

Verkið var umtalsvert að vöxtum enda var allur eldri búnaður fjarlægður af vinnsludekkinu sem og allar sjó-, raf-, loft- og glussalagnir. Uppsetning á vinnslubúnaði hófst í nóvember og lauk í janúar og tók lengri tíma en áætlað var í byrjun. Verkið stækkaði þegar því vatt fram, eins og oft er með verkefni af þessu tagi. Bæði átti það við um vinnu á vinnsluþilfari skipsins og skipaþjónustuna.

„Þrátt fyrir allt er skipið í ótrúlega flottu standi og ber eigendunum glöggt vitni um góða umhirðu. Langur afgreiðslutími á aðföngum vegna heimsfaraldursins spilaði einnig inn í ásamt öðru,“ segir Magnús sem bætir við að við hönnun á vinnsluþilfarinu var lögð áhersla á að halda uppi góðum afköstum en tryggja góða meðferð afla og aukafurða. Tryggt var að lágmarka alla fallhæð á þilfarinu, tryggja jafna meðferð á afla en jafnframt þurfti að huga að því að vinnsluaðstaðan hentaði fyrir vinnslu á vertíðarfiski sem jafnan er stærri en á öðrum tímum árs. Á þeim tíma árs mæðir mikið á áhöfn og búnaði og var það sérstaklega haft í huga.

Þurfti útsjónarsemi

Samhliða breytingum á vinnsludekkinu var þilfarið vatnsblásið, einangrun endurnýjuð og gólf klædd slitsterku efni. Skipið var jafnframt málað ásamt því sem öðru hefðbundnu viðhaldi var sinnt.

„Það þurfti ákveðna útsjónarsemi til að klára verkefnið, þegar hörgull var á rafmagnsaðföngum. Þá munaði um minna að njóta liðsinnis Jóhanns Haukssonar sem Slippurinn er í góðu samstarfi með,“ segir Magnús sem bætir við að Sæljónið er afrakstur vélræna hluta verkefnisins Sjávarlóns, sem Slippurinn hefur unnið að síðastliðin tvö árin með Háskólanum á Akureyri, Matís og Samherja. Verkefnið er enn í gangi og hefur hlotið styrk bæði frá AVS-sjóðnum og hinum nýstofnaða Matvælasjóði.

„Slippurinn hyggur á frekari sókn með Sæljónið. Eins og staðan er núna er verið að smíða slíkan búnað í tvö erlend skip og Sæljón í fjögur önnur á teikniborðinu auk þess sem fyrirhugað er að kæla í því lax á iðnaðarskala,“ segir Magnús.

Allt meira og minna nýtt

Frosti ÞH 229 er 22 ára gamall ísfisktogari en hann var smíðaður í Huanpu-skipasmíðastöðinni í Kína árið 2000.  Frosti er gerður út af samnefndri útgerð á Grenivík. Stutt er síðan lokið var við gagngerar endurbætur á skipinu en eldur kom upp í vélarrúmi skipsins á Halamiðum, norðvestur af Hornströndum, í október 2018. Endurnýja þurfti nánast allar raflagnir í vélarrúmi. Auk þess þurfti að setja í skipið nýja aðalvél, gír og skrúfu. Þetta voru því umfangsmiklar lagfæringar og endurnýjun sem gera þurfti á skipinu. Skipið var frá veiðum í sautján mánuði en hóf veiðar að nýju í mars 2020.


Sigurgeir Harðarson, vélstjóri um borð í Frosta, segir að skipið sé í dag meira og minna eins og nýtt eftir að millidekkið var endurnýjað.

Það er allt nýtt ef frá er talinn skrokkurinn og brúin. Það er mikið búið að endurnýja í brú og vélarrúmi og millidekkið er eins og nýtt. Þetta var lokahnykkurinn og Frosti í toppstandi, ég held að megi segja það,“ segir Sigurgeir sem bætir því þó við að lengi megi breyta og bæta. Það sé eilífðarverkefni um borð í hverju skipi.

Spurður um nýtt millidekk segir Sigurgeir að „strákarnir eru ánægðir. Ég hef ekki heyrt annað á þeim. Það er ekkert undan því kvarta.“

„Þetta er búið að ganga alveg ágætlega frá því við fórum af stað um seinni partinn í janúar. Við fórum fyrst einn prufutúr og það þurfti að gera eitt og annað á eftir. Eins og gengur og gerist. En búnaðurinn virkar mjög vel, það er alveg hægt að segja það. Þeir eru mjög ánægðir með fiskinn sem kaupa hann af okkur; þeir hjá Íslensku sjávarfangi og hafa sagt okkur það.“

Hér vísar Sigurgeir til þess að fiskurinn frá Frosta ÞH fer til Íslensks Sjávarfangs, öflugs fiskvinnslufyrirtækis í Kópavogi með um 100 starfsmenn. Fyrirtækið hefur unnið úr sjö til níu þúsund tonnum af hráefni á ári undanfarin ár. Fyrirtækið hefur verið í viðskiptum við öflugar útgerðir um hráefnisöflun og er stór kaupandi á fiskmörkuðum. Megináhersla hefur verið á ferskar afurðir með flugi og skipum, en fyrirtækið er einnig með söltun og frystingu.