Fyrsti stálbáturinn í raðsmíðaverkefni Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur var sjósettur í Tyrklandi í síðustu viku. Stefnt er að því að báturinn komi hingað til lands næsta vor og verði þá endanlega lokið við fullnaðarfrágang hans hjá SKN áður en hann verður afhentur útgerðarfélaginu Stakkavík í Grindavík.

Þetta er fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður inn í krókaaflamarkskerfið í yfir 20 ár. Báturinn verður nú dreginn frá skipasmíðastöð Akkan-Maritime til Tusla þar sem hann verður innréttaður og gengið frá vélbúnaði. Báturinn verður með tveimur 214 kW aðalvélum. Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri SKN, segir að enn frekari tafir hafi orðið á verkinu þar sem ákveðið hafi verið að fara út í meiri hönnunarvinnu og teikna skipið allt upp í þrívídd, hverja einustu lögn og hverja skrúfu. Þetta lengir ferlið um þrjá mánuði en kemur til góða og styttir smíðatímann þegar hafin verður smíði á næsta skipi. Auk þess verður með þessu móti tryggt að til eru nákvæmar skrár yfir alla íhluti sem auðveldar smíði þeirra þegar þörf er fyrir það.

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. FF MYND/GUGU
Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. FF MYND/GUGU

Þetta nýja verklag mun stytta smíðatímann á næsta bát um tvo mánuði sem þýðir að raunhæf tímaáætlun frá því að pöntun berst þar til sá bátur verður tilbúinn er 8-10 mánuðir.

Breyttar aðstæður

Báturinn sem Stakkavík fær afhentan á næsta ári fær heitið Margrét GK 9. Hann um 13 metra langur og 5,5 metrar á breidd, um 29,9 brúttótonn. Í honum verður pláss fyrir 60 kör. Algeng skrúfustærð á krókaaflamarksbátum er um einn metri í þvermál en skrúfan á nýsmíðinni er 1,7 metrar. Þráinn segir að með þessu fari olíunotkun niður um 25%. Einungis önnur vélin er keyrð meðan dregið er og báðar keyrðar þegar báturinn er á stími. Tilbúinn á línuveiðar með 20.000 króka á rekkum, krana, krapavél og fullkomnum tækjapakka í brú kostar báturinn á bilinu 370-380 milljónir króna.

„Með þessari smíði erum við að bregðast við breyttum aðstæðum í þessum útgerðarflokki. Í honum voru nánast eingöngu plastbátar sem hentuðu vel á sínum tíma. Nú er stórútgerðin að hasla sér völl og gerir út þessa báta eins og hverja aðra togara. Það hefur vantað sterkari og öflugri báta og við erum einungis að bjóða upp á valkost í þeim efnum,“ segir Þráinn.