Rannís skipuleggur fyrir hönd Enterprise Europe Network (EEN) fyrirtækjastefnumót þeirra fyrirtækja sem eru þátttakendur á íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin verður í Smáranum í Kópavogi dagana 8.-9. júní næstkomandi. Fyrirtækjastefnumótið er sögð leið til að kynnast mögulegum samstarfsaðilum til framtíðar.

Rannís hefur samband við alla þá sem skrá sig á sýninguna og býður þeim að skrá sig á ákveðið vefsvæði (B2Match) þar sem þeir búa til sitt notendasnið. Þar er skýrt frá helstu viðfangsefnum viðkomandi fyrirtækis, hvers konar samskiptum það leiti að eða hafi áhuga á. Önnur fyrirtæki sem hafa skráð sig með sama hætti geta óskað eftir fundum með fulltrúum fyrirtækja sem þeir vilja eiga samskipti við.

Fyrst var boðið upp á fyrirtækjastefnumót af þessu tagi á sjávarútvegssýningunni Icefish árið 2017. Þá tóku fjölmörg fyrirtæki þátt í stefnumótinu. Lýstu margir yfir mikilli ánægju með þetta fyrirkomulag sem jók enn frekar árangur margra fyrirtækja af því að taka þátt í sýningunni.

„Þau fyrirtæki sem hafa skráð sig á sýninguna geta skráð sig inn á fyrirtækjastefnumótasvæðið B2Match. Þar með geta fulltrúar annarra fyrirtækja sem hafa skráð sig skrunað niður listann af fyrirtækjum sem taka þátt í stefnumótinu og séð þar hvers konar fyrirtæki þetta eru og í hverju þau sérhæfa sig. Í framhaldinu er hægt að biðja um fund með fulltrúum fyrirtækjanna,“ segir Þorgerður Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís.

Á síðustu Icefish sýningunni 2017 áttu yfir 90 þátttakendur frá 24 löndum yfir 100 viðskiptafundi á fyrirtækjastefnumótinu. Nú þegar hafa 75 fyrirtæki á fjölmörgum sviðum og margvíslegum og stærðum skráð sig til leiks á fyrirtækjastefnumótinu. Skráning og þátttaka er fyrirtækjum að kostnaðarlausu. Hægt er að skrá sig á https://icefish2022.b2match.io/.