Bergur VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í fyrradag með fullfermi af karfa að eftir stutta veiðiferð að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ragnar Waage Pálmason skipstjóri segir veiðina hafa gengið býsna vel og verið góða og jafna.
„Veitt var á Reykjaneshryggnum en síðasta holið var þó tekið á Fjórtán mílna hryggnum. Þarna var nóg af karfa á báðum stöðum og veðrið var hið þokkalegasta en þó fengum við kaldafýlu á landleiðinni. Staðreyndin er sú að það kom okkur á óvart hve vel gekk að veiða,“ er haft eftir Ragnari á svn.is.
Túrinn var aðeins um tveir sólarhringar höfn í höfn að sögn Ragnars. „Sextán tímar fóru í stím þannig að við vorum einungis þrjátíu tíma að veiðum. Menn geta ekki verið annað en sáttir við það. Næsti túr verður væntanlega ýsutúr og þá verður farið austureftir.”