Við kortlagningu á minjum eftir norska hvalveiðimenn við Langeyri í Álftafirði á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum fannst 130 ára gömul flaska af Bacardi rommi. Norðmenn voru um tíma með sjö hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum og er margt um minjar um þessa starfsemi.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur hjá rannsóknasetrinu, hefur skoðað og kortlagt þessar minjar. Norðmenn gerðu út á hvalveiðar á Vestfjörðum frá árinu 1880 og fram á fyrsta áratug 20. aldar. Talið er að þeir hafi á þessum tíma skutlað um 10.000 hvali við Vestfirði. Alls reistu þeir átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum; á Langeyri og Dvergasteinseyri í Álftafirði, Uppsalaeyri í Seyðisfirði, Stekkeyri í Hesteyrarfirði, Meleyri í Veiðileysufirði, Sólbakka í Önundarfirði, Höfðaodda í Dýrafirði og Suðureyri í Tálknafirði. Hafa fjórar þeirra verið skráðar á vettvangi, þ.e. stöðvarnar á Dvergsteinseyri, Uppsalaeyri, Höfðaodda og Sólbakka.

Tilgangur rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um ástand, eðli og gerð þeirra minja sem norsku hvalfangararnir skildu eftir sig sem og að auka skilning á umsvifum norskra hvalveiðimanna á Íslandi og áhrifum þeirra á íslenskt samfélag.

Flutningaskipi sökkt

„Það er heilt skipsflak við hvalveiðistöðina við Dvergastein í Álftafirði. Einnig er gríðarlega mikið af alls konar gripum sem tengjast hvalveiðum við allar stöðvarnar. Fyrir framan þær eru líka heilu hvalbeinakirkjugarðarnir á hafsbotni. Þarna eru höfuðkúpur, hryggjarliðir og alls kyns bein. Bacardi flaskan lá þarna innan um hvalbeinin í sjónum framan við þar sem hvalveiðistöðin var á Langeyri. Hún er örugglega frá fyrri hluta 20. aldar. Þetta vitum við vegna þess að það er enginn skrúfaður tappi á henni og sömuleiðis vegna þess hvernig lagið á henni er. Líklegt er að rommið hafi komið frá Suður-Ameríku hingað til lands. Norðmenn óðu í peningum þegar þeir voru á hvalveiðum. Þeir veiddu líka hvali við Suður-Ameríku svo það þarf ekki að undrast að Bacardi flaska hafi slæðst með þeim hingað,“ segir Ragnar.

Í umfjöllun Ragnars um skipsflakið við Dvergastein í 108. hefti Árbókar hins íslenzka fornleifafélags segir að í sjónum við eyrina liggi flak barkskipsins Bergljótar sem var 400 tonna norskt timburflutningaskip. Því var sökkt við eyrina og átti að þjóna sem bryggja við síldarverksmiðju sem þar var starfrækt eftir að hvalveiðum lauk.