Landssamband smábátaeigenda setur sig gegn drögum að frumvarpi matvælaráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða sem fela í sér svæðaskiptingu strandveiða á ný. Frumvarp þess efnis hefur verið kynnt ríkisstjórninni.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður ekki lengur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hefur verið það heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða eins og verið hefur allt frá árinu 2018. Skipting aflaheimilda grundvallist á fjölda báta sem skráður er á hvert svæði fyrir sig á hverju ári, sem deilt verður niður á hvern mánuð. Gert er ráð fyrir ákvæði um flutning aflaheimilda milli tímabila og landsvæða innan fiskveiðiársins og einnig verður heimilt að flytja óveiddar aflaheimildir í lok fiskveiðiárs yfir á næsta fiskveiðiár. Allt annað er óbreytt þar með talið að sókn miðast við fjóra daga í viku, samtals 12 daga í hverjum mánuði.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda, segir ýmislegt óljóst í frumvarpsdrögunum. Þar komi hvorki fram hver landfræðileg mörk svæða eigi að vera né það hlutfall aflaheimilda sem verði veitt mánaðarlega inn á hvert svæði.

Skýr afstaða

„Okkar afstaða er alveg skýr. Við viljum að það sé algjörlega byggt á þessu dagakerfi sem hefur verið við lýði og tryggt að ekki komi til stöðvunar veiða. En það renna auðvitað tvær grímur á menn ef skammtaður er of lítill afli miðað við afkastagetu þeirra sem stunda strandveiðarnar með þeim afleiðingum að ein vika af júlí og allur ágústmánuður falli niður eins og gerðist í fyrra. En það er svo lítið sem vantar upp á í aflaheimildum til þess að núverandi kerfi beri sig og því á engan hátt réttlætanlegt að vekja upp gallað fyrirkomulag strandveiða sem Alþingi hafnaði á sínum tíma. Þess þá heldur væri réttlætanlegt festa lög til fimm ára 48 daga til strandveiða.“ segir Örn.

Hann minnir á að fyrirkomulagi strandveiðanna hafi verið breytt 2018 og þá tekið upp núverandi kerfi. Þar hafi ekki síst ráðið sjónarmið sem lúta að öryggi sjómanna.

„Þetta var þannig að stöðvun veiða var stundum yfirvofandi strax fyrstu daga hvers mánaðar sem varð til þess að sjómenn kepptust við að ná sem flestum dögum í byrjun hvers mánaðar. Það var farið til veiða þótt veðurútlit væri ekki með besta móti.“