Undanfarin ár hefur verið stundað hér eldi á senegalflúru, styrju, gullinrafa, sæeyrum og ostrum, með nokkuð misjöfnum árangri. Sumt hefur gengið vel en annað ekki. Regnbogasilungurinn er einnig innflutt tegund en hrogn regboga voru fyrst flutt til Íslands árið 1951.

Þetta kemur fram íársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2022, þar sem er að finna ítarlegt yfirlit um lagareldi hér á landi. Þessi samantekt er byggð á þeirri skýrslu.

Á síðasta ári voru flutt inn sótthreinsuð regnbogasilungshrogn frá Danmörku, senegalflúruseiði og gullinrafaseiði frá Spáni og einnig voru flutt inn fengranaseiði og lirfur Kyrrahafsrækju.

Regnbogasilungur hefur verið fluttur til landsins frá Danmörku á hverju hausti síðan 2007. Árið 2022 voru það 164 lítrar af regnbogasilungshrognum sem flutt voru inn, eða 1.495.000 stykki, og er það fjórföld aukning frá árinu á undan.

Það var síðan Matís sem stóð fyrir innflutningi á seiðum fengrana og lirfum Kyrrahafsrækju. Voru seiðin og lirfurnar notuð til rannsókna að Keldnaholti og fargað að tilraunum loknum.

Flúra og styrja

Senegalflúrueldi (Solea senegalensis) hófst með formlegum hætti hjá Stolt Sea Farm Iceland á Reykjanesi í ágúst 2013 og hefur eldið gengið að óskum. Flúran hefur sýnt sig að vera harðger tegund og sæmilega hraðvaxta.

Styrjueldi (Acipenser transmontanus) hófst sem lítil tilraun hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi í desember 2014 og hefur styrjan alla tíð dafnað afskaplega vel, en eftir í ljós kom að kavíarframleiðsla fer ekki vel saman með eldi á öðrum tegundum til slátrunar varð úr að nýstofnað félag á Ólafsfirði keypti allar styrjurnar og tókst vel til með flutning norður í apríl 2022. Áform eru uppi um að koma af stað kavíarframleiðslu á þessu ári, en reikna má með góðri hrognaframleiðslu annað hvert ár. Einnig er ráðgert að koma seiðaeldi sem fyrst í gang og ná þannig fram nýrri kynslóð til hrognatöku eftir um átta ár.

Sæeyru í Grindavík

Eldi á grænum sæeyrum hefur síðan verið stundað allt frá árinu 2012 hjá Sæbýli á Eyrarbakka, en á síðasta ári var starfsemin flutt til Grindavíkur og nú er unnið markvisst að uppbyggingu lífmassa framleiðsludýra í nýju aðstöðunni í Grindavík. Jafnframt eru áform um að hefja eldi „rauðra“ dýra á nýjan leik, en eldið hefur gengið upp og niður og ýmsar áskoranir komið upp sem þó hefur tekist að leysa.

Endaslepp tilraun

Gullinrafi (Seriola dumerili) var í fyrsta sinn fluttur inn frá Spáni sumarið 2021 til tilraunaeldis hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Sú tilraun varð hins vegar endaslepp fegna þess að í október síðastliðnum stöðvaði HS Orka jarðvarmavirkjun sína vegna viðhalds á hverflum. Óvíst er með framhaldið, en enginn innflutningur seiða hefur átt sér stað síðan þetta kom upp.

Þá var Ostrurækt stunduð hér á landi á vegum Víkurskeljar á Húsavík allt frá júní 2013 en svo virðist sem endanlega hafi fjarað undan því árið 2021. Í lok þess árs var engin ostra á lífi lengur hér við land.