„Skipið er bara búið. Það stóð ekki til annað en að keyra það út þótt þetta sé kannski heldur fyrr en við reiknuðum með,“ segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, um afdrif togarans Múlabergs sem nú verður lagt.

„Þegar skip eru orðin svona gömul og viðhaldsfrek þá er þetta bara tímaspursmál,“ segir Stefán.

Nú segir Stefán að vinna verði úr þeirri stöðu sem upp sé komin. „Við fáum nýjan togara um áramót sem verður væntanlega mjög öflugur. Það er uppstokkun í kring um útgerðina þegar útgerð nýja togarans hefst. Þetta hefur ekki mikil áhrif á rekstur félagsins,“ segir hann. Togarinn sem um ræðir er Sigurbjörg sem verið er að smíða í Tyrklandi.

Ráðnir á skipið en ekki til félagsins

Varðandi skipverjanna á Múlabergi segir Stefán ekkert annað að gera en að segja mönnum upp þegar ekkert annað sé fast í hendi.

„Og reyndar er það nú þannig að menn eru ráðnir á skip en ekki til félagsins þannig að þetta eru bara einu viðbrögðin sem koma til greina – að klára ráðningarsambandið milli fyrirtækisins og skipverjanna þegar ljóst er að skipið verður ekki gert úr lengur,“

skýrir forstjórinn uppsagnir áhafnar Múlabergs.

Stefán segir að í sjálfu sér sé ekkert klárt með framhaldið. Múlabergið hefur að sögn Stefáns verið gert út á rækju frá vori fram á haust og síðan á bolfisk.

Óljóst með framhald rækjuveiða

„Það var hins vegar hugmyndin að hafa það áfram á rækju í vetur en það er náttúrlega ljóst að dagar þess eru taldir þannig að þær hugmyndir ganga ekki eftir,“ segir hann.

Brotthvarf Múlabergs segir Stefán engin áhrif á bolfiskveiðar og – vinnslu hjá Ísfélaginu. Spurður um rækjuvinnsluna í landi segir hann að hún byggi að mestu leyti á innfluttu hráefni.

„Þannig að það heldur bara áfram og svo verður bara að koma í ljós hvernig rækjuútgerð okkar verður háttað í framhaldinu. Það er ekki búið að taka neinar endanlegar ákvarðanir í því,“ segir forstjóri Ísfélagsins.