Línubátar Loðnuvinnslunnar halda áfram að gera það gott og skiluðu báðir metafla á síðasta ári, annað árið í röð. Andrés Pétursson skipstjóri segir að veiðarnar miklu fjölskylduvænni eftir að farið var að hafa tvær áhafnir sem skiptast á.

Andrés Pétursson, skipstjóri á línubátnum Hafrafelli SU, segir veiðarnar hafa gengið vel undanfarið. Það sé helst ótíðin í janúar sem hefur verið að trufla.

„Það hefur aldrei hvesst svo mikið að ekki lægi aftur,“ segir hann. Sjórinn er sóttur stíft og alltaf farið út þegar veður leyfir.

„Við erum með tvær áhafnir, hálfan mánuð í einu, og þá er maður bara með laun fyrir það sem maður gerir þannig að maður reynir að gera allt sem maður getur. Þetta er búið að vera mjög fínt, nema helvítis ótíð í janúar.“

Misjafnt er hve langt er siglt og það ræðst meðal annars af tíðarfarinu.

„Það er allur gangur á því, allt frá klukkutíma eins og þarna fyrir austan og svo upp í fimm tíma eða sex tíma eða eitthvað svoleiðis. Ef loðnan flæðir yfir fyrir austan eða fiskeríið dettur niður þá komum við hérna suður og þá er það miklu styttra. Þá er þetta kannski frá korteri og upp í tvo tíma.“

Fiskurinn eltur

Hafrafell SU 65 er rétt tæplega 30 brúttólesta línubátur, gerður út frá Stöðvarfirði en aflinn er fyrst og fremst unninn í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Misjafnt er þó hvar landað er. Oft er það á Stöðvarfirði en „svo bara eftir því hvar er styst í höfn og hentugast hverju sinni. Ef við erum aðeins norðar þá höfum við verið mikið í Neskaupstað og svo Vopnafirði og Bakkafirði. Bara eftir því á hvaða árstíma við erum og hvar veiðin er. Við eltum fiskinn og flutningabílstjórinn eltir okkur.“

Ekki fer á milli mála að þjónusta flutningabílstjórans skiptir gríðarmiklu fyrir áhöfnina. Hann kemur þangað sem skipið landar hverju sinni og sækir fiskinn. Þar á ofan sér hann um beituna og græjar hana fyrir áhöfnina.

Tveir skipstjórar eru á Hafrafelli SU og áhafnirnar skiptast á um að vinna hálfan mánuð í einu. Á móti Andrési er það Ólafur Svanur Ingimundarson sem sér um skipstjórnina. Þessa dagana er Andrés að ljúka sínu hálfsmánaðarfríi og tekur þá við af Ólafi sem hefur verið við stjórnvölin undanfarnar tvær vikur.

Djöflast í tvær vikur

Andrés segir vinnuna orðna miklu fjölskylduvænni eftir að farið var að hafa tvær áhafnir.

„Það er mætt í hálfan mánuð og djöflast til að gera sem mest, til að fá einhvern aur í vasann. Þetta er bara gangurinn hjá okkur.“

Síðan er hálfur mánuðir í fríi, og þá er tíminn notaður vel.

„Það er bara slakað á og njóta fjölskyldurnar. Þetta eru svoleiðis óttalega helvítis tarnir. Þetta er breytt frá því var hérna í denn, þá var bara keyrt út í eitt. Þegar maður var að byrja á þessu, á stóru línubátunum hérna í gamla daga, þá voru kannski fjórir dagar í mánuði sem maður var í fríi.“

Hann segir þetta mikla breytingu frá því sem áður var, og þannig sé það nú orðið á flestum veiðarfærum.

„Á frystitogurunum eru þeir farnir að skipta þessu, menn eru farnir að taka mánuð úti á sjó og mánuð í fríi, heldur en að vera bara alfarið á sjó. Þetta er orðið miklu fjölskylduvænna.“

Andrés segir góðan anda í áhöfninni og flestir búnir að vera í langan tíma á bátnum.

Velgengni áfram

Loðnuvinnslan segir árið 2021 almennt hafa verið fengsælt fyrir skip félagins, rétt eins og verið hefur undanfarin misseri. Aflaverðmæti beggja línubátanna hækkaði milli áranna 2020 og 2021, hjá Hafrafelli um 16% og Sandfelli um 12%. Þetta er annað árið í röð sem aflatölurnar bátanna milli ára.

Ekki hefur síður gengið vel hjá uppsjávarskipsinu Hoffelli SU, því aflaverðmæti þess hækkaði um heil 47% milli ára. Hins vegar varð aflaverðmæti skuttogarans Ljósafells 5% minna árið 2021 en 2020. Loðnuvinnslan segir samdráttinn skýrast af því að Ljósafell var frá veiðum vegna slipptöku og framkvæmdum við krapavélar í samtals 7 vikur á síðasta ári.